144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég sagði aldrei að Íslendingarnir sem komu með mér í verslun í Þýskalandi hefðu haft gaman af því. Þeir urðu fyrir léttu áfalli að sjá brennivín og léttvín við hliðina á mjólkinni og ostinum. Það var ákveðið áfall fyrir þá. Ég hafði hins vegar gaman af því en það er önnur saga.

Hvort þetta sé trúarbragðalegt, jú, það getur vel verið að það sé þannig. Hv. þingmaður trúir á ríkið og ég trúi á einstaklinginn og frelsi þannig að kannski eru þetta að því leyti trúarbrögð.

Ég hef reyndar fært rök fyrir skoðun minni. Af hverju þurfa þeir sem afgreiða áfengi að vera opinberir starfsmenn á meðan heilsugæslan er sums staðar í einkarekstri? Heimilislæknirinn gamli er einkarekinn, hann er ekki opinber starfsmaður. Hvernig stendur á því að menn þurfa á þessu sviði að hafa opinbera starfsmenn? Ég spyr að því. Ég trúi náttúrlega á frelsi einstaklingsins en hv. þingmaður gerir það ekki, hann trúir á annað.

Það er ekki síður ágóðaþáttur hjá þeim sem eru að vinna hjá ÁTVR. Fólk vinnur þar til þess að hafa góð laun. Fyrirtækið skilar hagnaði í ríkissjóð og allt svoleiðis, það er ágóði alls staðar.

Í augum hv. þingmanns eru þetta eflaust frelsiskreddur og ég bara fellst á það. Við erum ekki með sömu skoðun og ég ber virðingu fyrir skoðunum hv. þingmanns sem vill að ríkið yfirtaki allt. Ég er bara ekki sammála honum.