144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

menningarsamningar landshlutasamtakanna.

[15:23]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég sef þá vært í nótt eftir þetta svar. Ég skil það á þann veg að jafnvel þó að fara eigi í einhverjar breytingar á þessum samningum verði það ekki til þess að upplausn verði núna við undirritun þessara samninga.

Mig langar að spyrja að öðru. Það hefur ekki verið hækkun á þessum menningarsamningum. Nú hafa verið gerðar leiðréttingar hjá mörgum menningarstofnunum, ég get vísað á bls. 296 í fjárlagafrumvarpinu, það er jákvætt skref og ég geri ekki lítið úr því. En ég velti því fyrir mér hvort ekki eigi það sama yfir alla að ganga og af hverju þessir menningarsamningar við landshlutasamtökin hækka þá ekki líka og taka tillit til verðlagsbreytinga. Ég get líka nefnt menningarsamninginn við Akureyrarbæ sem hefur í raun lækkað, hvort ekki sé mikilvægt að þarna sé jafnræðis gætt, því að menningin úti á landsbyggðinni er síst ofhaldin.