144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

starfsstöðvar og þjónusta sýslumanna í Norðausturkjördæmi.

233. mál
[15:57]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Áður en ég svara einstökum spurningum vil ég taka það sérstaklega fram að ég tel að Alþingi hafi unnið mjög gott verk og náð farsælli og þverpólitískri niðurstöðu þegar samþykkt voru lög á síðasta þingi um breytingar á þessu fyrirkomulagi.

Ég er mér mjög meðvituð um það sem hv. þingmaður nefnir að þetta er mikilvægt ferli sem kallar á mikla samvinnu og mikla eftirfylgni og að við fylgjumst vel með því vegna þess að í umræðunni er auðvitað spurt: Kemur þetta til með að skerða þjónustu á hverjum stað, verða breytingar, verður sagt upp starfsfólki o.s.frv.? Það kemur skýrt fram í greinargerð og lögunum og þau voru samþykkt með því fororði að slíkar breytingar eiga ekki að eiga sér stað í gegnum þá breytingu sem við erum nú að innleiða. Við þurfum því að fylgjast vel með því að þannig verði það og ég hef lagt mikla áherslu á að vinna verkið á þann hátt.

Hvað varðar einstakar spurningar sem hv. þingmaður ber fram og varða breytingar á starfsstöðvum sýslumanna í Norðausturkjördæmi þá er því til að svara, og ég efast ekki um að hv. þingmaður þekki það, að Svavar Pálsson, sem verið hefur sýslumaður og lögreglustjóri á Húsavík, hefur verið skipaður sýslumaður hins nýja sameinaða embættis. Þegar er hafinn undirbúningur undir forustu hans að stofnun hins nýja embættis. Þá hefur verkefnisstjórn sem ráðherra skipar einnig hafið störf og hefur yfirumsjón með verkefninu á hverjum stað. Hún vinnur ásamt verkefnisstjóra að samræmingu og árangursstjórnun við umrædda sameiningu. Sú vinna er í góðum gangi. Auðvitað koma upp ýmis viðfangsefni á leiðinni sem við reynum að vinna með á landsvísu.

Ég vil taka það fram og ítreka það sem ég sagði áðan að við breytingarnar verður leitast við að raska högum starfsfólks hinna gömlu embætta sem minnst. Lögð er sérstök áhersla á það í lagasetningunni að allir starfsmenn haldi störfum sínum, þó að þeir kunni að þurfa að hlíta tilteknum breytingum á starfi sem verða gerðar undir forustu leiðtoga á hverju svæði og undir forustu umræddrar verkefnisstjórnar.

Ég ítreka varðandi spurningu nr. 2, hvort þjónusta sýslumanna verði svipuð og nú eftir breytingarnar, að til stóð að þannig yrði það. Markmið laganna er að þjónusta hinna nýju embætta verði eins góð og kostur er. Markmiðið er einnig að tryggja að starfsstöðvarnar verði stærri, ráði við stærri verkefni. Við erum að vinna að reglugerð um umdæmi og starfsstöðvar þar sem við byggjum á þeirri vinnu sem hafin var og því samráði sem verið hefur á milli okkar og embættanna á hverjum stað. Síðan er unnið að því verkefni, sem ég vona að þingheimur taki höndum saman um, sem lýtur að því að færa verkefni frá miðlægri stjórnsýslu á höfuðborgarsvæðinu til embætta sýslumanna, sem á að fela í sér hagræðingu og sparnað en einnig aukna þjónustu á landsbyggðinni.

Sem svar við 3. spurningunni er ljóst að tíminn til þessara breytinga var knappur, það er hárrétt hjá hv. þingmanni, hann er knappur. En það er ekki einungis af því að löggjafinn hafi viljað hrinda lögunum fljótt í framkvæmd heldur einnig vegna þess að frá öllum svæðum var ósk um að ekki yrði gefinn of langur tími þannig að breytingarnar yrðu innleiddar fljótt og óvissan í kringum þessa þjónustu yrði minni.

Hvað varðar fjárveitingar, virðulegur forseti, má sjálfsagt finna það út að fjárframlögin mættu vera meiri. Engu að síður eru fjárframlög núna verðbætt og samsvara því sem áður var. Nýju embættunum eru ætlaðar svipaðar fjárveitingar og gömlu embættin fengu áður. Síðan var gert ráð fyrir að efnt yrði til ákveðins átaks sem tengist því að upplýsingakerfi, sérstaklega sýslumanna, verði hagkvæmari og farsælli en hefur verið.

Varðandi síðustu spurningu hv. þingmanns um löglærða fulltrúa þá eru víða áhyggjur af því, ekki einungis í kjördæmi hv. þingmanns heldur í öðrum kjördæmum, að löglærðum fulltrúum fækki. Það er ekki markmiðið með lagasetningunni. Við erum að reyna að tryggja það í vinnu með einstaka kjördæmum og svæðum að því verði sem best fyrir komið. Hins vegar er það þannig, að minnsta kosti á því stigi sem verkefnið er núna sem lýtur að því að sýslumenn og lögreglustjórar á hverjum stað leiða verkefnið og kynna það síðan fyrir ráðherra sem endanlega afgreiðir það, að ég verð að treysta því að menn og konur um allt land vinni þetta vel og tillögurnar verði þannig að breytingarnar komi ekki niður á því sem hv. þingmaður nefndi. Það er sérstakt keppikefli þeirra sem koma að þessum verkefnum um allt land að tryggja meðal annars að ekki fækki fólki í starfsliði sem hefur sérstaka fagþekkingu eða háskólamenntun o.s.frv., þannig að undirstöður embættanna verði eins öflugar og mögulegt er.