144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:21]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, þau atriði sem hv. þingmaður nefndi og ég fór yfir í ræðu minni skipta vissulega miklu máli þegar verið er að meta ástand mála á milli landa. Þar kemur drykkjumenningin sannarlega inn í og það er mikill munur á neyslumynstri áfengis eftir löndum.

Ég er með fyrir framan mig tvö blöð úr þessari skýrslu, annars vegar íslenska blaðið og hins vegar finnska blaðið. Það er gríðarlegur munur á eiginlega öllum þáttum sem þarna eru dregnir upp, bæði á magninu sem er neytt á ári hverju yfir 15 ára aldri og samsetningu vínsins sem drukkið er.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, fram eftir síðustu öld og jafnvel alveg fram undir 2000, til 1998, var alkóhólneysla hér á landi í magni til samtals á mann, ekki á 15 ára og eldri, í kringum 5 lítrar. Það var markið sem menn settu í fyrstu heilbrigðisáætlunina sem hér var sett á árinu 2008, held ég.

Við höfum farið í hina áttina síðan þá og eins og ég sagði er nú heildarmagnið tæplega 12 lítrar á 15 ára og eldri en um 8 lítrar á mann miðað við íbúafjöldann allan. Það er rétt að unglingadrykkja hefur breyst mjög mikið hér, það hefur dregið úr henni. Það sem hefur vonandi dregið úr er þessi gegndarlausa drykkja sem veldur mestri skaðsemi en ég er ekki viss um að það sé forvörnunum að þakka. Þvert á móti hefur komið fram, eins og í norrænu skýrslunni sem hér var til umræðu síðast, (Forseti hringir.) að forvarnirnar virðast ekki skila miklu gagnvart unglingunum.