144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:48]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni yfir því að hæstv. heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson er mættur til þings og hefur þannig orðið við beiðni okkar þingmanna sem ítrekað höfum kallað eftir því. Ég tek undir þær óskir sem hér hafa komið fram um að hæstv. ráðherra tjái sig um álit Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem gengur þvert á það sem frumvarpið boðar. Ég tek undir óskir sem fram hafa komið um að hæstv. ráðherra tjái sig um stefnu sem mótuð hefur verið hjá Norðurlandaráði og Íslendingar hafa átt drjúgan þátt í að móta, sem felur meðal annars í sér að stefnt skuli að því að færa neyslu áfengis niður um 10% á næstu árum.

Ég tek undir óskir sem fram hafa komið um að hæstv. ráðherra tjái sig um afstöðu landlæknisembættisins sem hefur með þessi mál að sýsla í umboði hæstv. heilbrigðisráðherra og heilbrigðisráðuneytisins, hvaða afstöðu hæstv. ráðherra hafi til slíks. Ég tek undir óskir sem fram hafa komið um að hæstv. ráðherra tjái sig um sjónarmið sem sett hafa verið fram af hálfu samstarfsráðs um forvarnir, að við heyrum hvaða afstöðu hann hafi til slíks. Ég tek undir óskir sem fram hafa komið um að hæstv. ráðherra tjái sig um sjónarmið margvíslegra hópa og einstaklinga sem vinna að forvörnum á sviði áfengismála. Ég vísa til dæmis í SAMAN-hópinn, sem svo er nefndur, en hann sendi frá sér yfirlýsingu fyrir fáeinum dögum. Þar segir, með leyfi forseta:

„SAMAN-hópurinn lýsir yfir andstöðu sinni við fram komnar tillögur að breytingum á áfengislögum þar sem til stendur að afnema einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á sölu áfengis og leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum.“

Í yfirlýsingunni sem hópurinn sendi frá sér segir um hópinn sjálfan, með leyfi forseta:

„Hlutverk SAMAN-hópsins er að styrkja foreldra í uppeldishlutverkinu með jákvæðum skilaboðum og stuðla þannig að vímuefnavörnum.“

Síðan segir um þennan hóp, með leyfi forseta:

„SAMAN-hópurinn er samstarfshópur fulltrúa 22 sveitarfélaga, stofnana og frjálsra félagasamtaka sem vinna að velferð barna og ungmenna. Markmið hópsins er að minnka áfengis- og vímuefnaneyslu á meðal barna og ungmenna með áherslu á að virkja foreldra til ábyrgðar.“

Ég tek undir óskir sem fram hafa komið á Alþingi um að heyra álit hæstv. heilbrigðisráðherra á viðhorfum allra þeirra aðila sem ég hef hér vísað til. En fyrst og fremst vil ég heyra álit hæstv. heilbrigðisráðherra Kristjáns Þórs Júlíussonar á yfirlýsingum sem sami maður, hæstv. ráðherra Kristján Þór Júlíusson, hefur sjálfur gefið. Ég vísa hér í yfirlýsingu á vef Stjórnarráðsins, heilbrigðisráðuneytisins nánar tiltekið, frá 24. janúar sl. Þar segir, með leyfi forseta:

„Heilbrigðisráðherra hefur samþykkt stefnu í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020. Á grundvelli hennar verða skilgreind mælanleg markmið og sett fram áætlun um aðgerðir til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.“

Nokkrum línum neðar eru markmiðin skilgreind. Þar segir í fyrsta lið, undir fyrirsögninni Yfirmarkmið stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020:

„Að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum.“

Nú stendur hæstv. heilbrigðisráðherra ekki að því frumvarpi sem hér er til umræðu en okkur leikur forvitni á að heyra hver afstaða hæstv. ráðherra er til þessa frumvarps sem okkur sýnist flestum að gangi í berhögg við þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur boðað og við höfum léð samþykki á alþjóðavettvangi, hvort sem er hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, Norðurlandaráði eða í embættum sem sýsla með þessi mál og heyra undir hæstv. heilbrigðisráðherra. Við bíðum eftir því að heyra hver afstaða hæstv. ráðherra er til þessara mála áður en málið fer til umfjöllunar í nefnd þingsins.