144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:10]
Horfa

Oddgeir Ágúst Ottesen (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála því að skert aðgengi að áfengi hafi áhrif. Ef við mundum banna áfengi mundi áfengisneysla minnka. Ef áfengi væri bara selt á einum stað í Reykjavík og einum úti á landsbyggðinni þá mundi neyslan minnka. En sú þróun sem orðið hefur síðustu árin hefur verið til hagsbóta fyrir neytendur.

Fólk vill drekka áfengi, við breytum því ekki. Það er til hagsbóta fyrir fólk að geta keypt áfengi án mikillar fyrirhafnar, þurfa ekki að keyra 30 kílómetra í næsta byggðarlag eða kaupa það á tímum sem því finnst óhentugur. Þessi þróun hefur því verið til hagsbóta fyrir fólk.

Hitt er rétt að það að fjölga stöðum sem selja áfengi og lengja opnunartíma hefur örugglega haft einhver áhrif. En það hefur ekki haft slæm áhrif á drykkjumenninguna eða drykkjusiði á Íslandi, ég er alveg viss um það. Á heildina litið held ég að þetta yrði til hagsbóta fyrir neytendur. Það mundi ekki breyta því hverjir drekka áfengi en fólk getur þá keypt áfengi á þeim tíma sem það vill.

Menn hafa áhyggjur af því að verslunin gæti farið að selja unglingum áfengi. Nú bjó ég í landi í sex ár þar sem áfengi var selt í verslunum og ég fullyrði að mun erfiðara var fyrir ungt fólk, fólk sem ekki hafði til þess aldur, að kaupa áfengi en er hér á landi, það var miklu erfiðara. Verslanir voru hræddar um að missa leyfið ef þær seldu fólki undir aldri áfengi. Það var því miklu meiri hvati fyrir verslunareigendur að tryggja að engum yrði selt áfengi sem ekki hefði aldur til þess. Ég hef því ekki áhyggjur af þessu atriði.