144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[21:08]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skildi ekki alveg svarið við spurningunni um SÁÁ, ég hélt að þeir væru bara alfarið á móti frumvarpinu og hefðu varað sterklega við því. Við erum þá sammála um að aukið aðgengi hefur leitt til aukinnar neyslu og aukin neysla áfengis leiðir til aukinna samfélagsvandamála og þá í eldri hópum ef við tökum unglingana út úr myndinni.

Ef við erum sammála um að samfélagsleg vandamál aukist, lendir kostnaðurinn á samfélaginu. Þá spyr ég hv. þingmann: Klingir aukin áfengisneysla, sem stafar af auknu aðgengi, ekki viðvörunarbjöllum? Ef við aukum aðgengið enn meira eykst neyslan þá ekki í sama hlutfalli? Felur það þá ekki í sér ákveðinn kostnaðarauka fyrir samfélagið? Er það ekki svolítil einföldun að segja, eins og kom fram hjá hv. þingmanni hér áðan, ekki þér reyndar, að gott sé að hafa góðan hverfispöbb eða knæpu eða hvað menn nefna það, (Gripið fram í.) — það varst ekki þú — að það bæti mannlífið?

Það er ekki talað um skuggahliðarnar á því máli (Forseti hringir.) þegar við getum farið að kalla þetta búllur. (Forseti hringir.) Þá eykst drykkjan.