144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[15:42]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þingflokkur Bjartrar framtíðar er í öllum grundvallaratriðum algjörlega mótfallinn þessum aðgerðum. Við teljum arfavitlausa fásinnu að fara í þessar skuldaleiðréttingaraðgerðir með þessum gríðarlega tilkostnaði fyrir hið opinbera. Þessa peninga þarf í annað. Það getur ekki verið hlutverk ríkisvaldsins að greiða niður einkaskuldir og þaðan af síður á tímum þar sem margt virðist benda til að góðæri sé að hefjast. Skuldastaðan hefur batnað.

Þetta er sóun á almannafé.

Hér er verið að breyta einhverjum tæknilegum útfærslum á þessari arfavitlausu aðgerð. Vegna þess að við erum á móti þessu í grundvallaratriðum breytir þetta mál engu þar um og við sitjum því hjá (Forseti hringir.) um þetta.