144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[15:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við þingmenn Vinstri grænna vorum andvíg þessum ráðstöfunum í fyrra einfaldlega vegna þess að við teljum þetta óréttlætanlega meðferð mikilla opinberra fjármuna. Þeir ágallar eru enn til staðar, það er ljóst að miklir fjármunir úr ríkissjóði munu renna til fólks sem er tekjuhátt, stórefnað og ekki í neinum sambærilegum vandræðum og margir aðrir þeir sem ættu frekar kröfu á því að ríkið kæmi þeim til hjálpar, svo sem leigjendur eða aðrir slíkir.

Hér er verið að reyna að lappa upp á framkvæmdina en um leið kemur í ljós að enn er margt óljóst um hana sem slíka og á þó að fara að setja reikniverkið af stað. Það er ósamið við bankana um kjörin á þessum viðskiptum og Eftirlitsstofnun Evrópska efnahagssvæðisins, ESA, sem fylgist grannt með málinu, enda gæti verið um ólögmæta ríkisaðstoð að ræða, hefur að sjálfsögðu ekki komist að niðurstöðu í því máli. Hvað ætla menn að gera ef þeir rekast til dæmis á þann vegg?

Það kemur líka í ljós þegar málið er skoðað að hér er kannski fremur um að ræða, a.m.k. í fyrstu umferð, lánahreinsun en lánaleiðréttingu. Þeir sem allan forgang hafa í fyrstu umferðum úthlutunar eru fjármálafyrirtækin sem fá öll sín vanskil, greiðslujöfnunarreikninga (Forseti hringir.) og allt greitt upp í topp áður en nokkrar krónur (Forseti hringir.) ganga til lækkunar á höfuðstól lána einstaklinganna. (Forseti hringir.) Það er margt athugavert við þetta mál og hefur heldur versnað eftir því sem fleira kemur í ljós.