144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[18:53]
Horfa

Flm. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég þakka þingmönnum og öðrum sem hafa tekið þátt í umræðunni fyrir mjög málefnalega og góða umræðu. Hér hefur verið skipst á skoðunum og ýmsum hugmyndum verið hreyft, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson gat um áðan í andsvari við hv. þm. Óla Björn Kárason. Það er auðvitað mikils vert að ýmsar hugmyndir séu settar fram. Sumir eru ánægðir með þær en aðrir ekki, eins og gengur og gerist.

Það er mikilvægt eftir þá samstöðu sem myndaðist á síðasta þingi með samþykkt umræddrar tillögu að haga þessu máli áfram á þann hátt sem hér er lagt til. Ég er sannfærður um að hinir pólitísku flokkar geta náð samstöðu um þetta mál. Ég ítreka þakkir mínar til allra þeirra þingmanna sem hafa tekið þátt í umræðunni.

Mig langar að fara aðeins aftur til upphafs Landspítala og byggingar hans. Það voru nefnilega konur sem hófu söfnun í tilefni af kosningarrétti þeirra árið 1915. Á næsta ári eru 100 ár liðin frá því að konur fengu kosningarrétt. Fé var fyrst veitt til byggingar Landspítalans árið 1925 og framkvæmdir hófust. Þá og þegar konurnar hreyfðu þessu máli 1915 komst málið á rekspöl.

15. júní árið 1926 lagði Alexandra Danadrottning hornstein að húsinu. Aðeins einu ári síðar var húsið fokhelt. Jónas frá Hriflu sagði þá að þetta væri stærsta og dýrasta hús á Íslandi. Hann sagði jafnframt að með stofnun Landspítala hefði íslenska þjóðin stigið langt skref fram á við í heilbrigðis- og menntamálum. Það er allt í lagi að rifja upp það sem gerðist fyrir 100 árum síðan og sjá hvers konar afrek það hefur verið á sínum tíma að gera þetta á þennan hátt.

Ég gat hér áðan um þá tillögu sem Alþingi samþykkti með 56 samhljóða atkvæðum í vor sem var á þá leið að Alþingi ályktaði að fela ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða mætti undirbúningi að endurnýjun og uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut í Reykjavík og hefja framkvæmdir þegar fjármögnun hefði verið tryggð. Þetta er grunnurinn að tillögunni sem ég er 1. flutningsmaður að og hefur verið til umræðu nú síðdegis.

Eins og ég sagði hafa margir þingmenn komið með ýmsar leiðir og nefnt þær hér. Þetta er gildi svona umræðu og rökræðu. Menn hafa nefnt þær hugmyndir sem þeir hafa verið með. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddi um fjármögnunarleiðir, m.a. að auðlegðarskattur yrði áfram lagður á og færi beint í Landspítalann. Hér hefur verið rædd sala ríkiseigna. Landsbankinn var nefndur. Hluti í Landsvirkjun hefur verið nefndur. Áðan kom fram, sem ég var reyndar búinn að gleyma, að hv. þm. Frosti Sigurjónsson hefði nefnt að sykurskatturinn yrði eyrnamerktur byggingu spítalans. Svo má lengi telja. Þetta er gildi rökræðu. Þetta er ánægjuleg umræða. Hér hefur verið talað um hugmyndir og lausnir og ég hika ekki við að halda því fram að ef við getum myndað samstöðu allra þingflokka um að kjósa þá nefnd sem tillagan fjallar um þá mun okkur takast á ekki mjög löngum tíma að landa þessu máli þannig að allir geti vel við unað og komið verkinu í gang. Við verðum þá engir eftirbátar kvennanna sem störtuðu þessu verki árið 1915.

Það er óþarfi að fara í gegnum margt af því sem sagt hefur verið, m.a. þau gögn sem Spítalinn okkar, þau góðu samtök, hafa sett fram. Ég ítreka einfaldlega að við erum að tala um flaggskip heilbrigðisþjónustu á Íslandi, við erum að tala um að mynda þjóðarsátt um að byggja nýjan Landspítala og koma málinu í gang.

Hvað gerist á degi hverjum á Landspítalanum? Er þetta ekki mikilvægasta stofnun sem við eigum? Í gögnum sem voru gefin út af Landspítala árið 2013, ef ég man rétt, voru tekin nokkur dæmi af einum degi á Landspítalanum. Á hverjum einasta degi komu á göngudeildir 1.285 sjúklingar. Á legudeildum lágu 590 sjúklingar. Á bráðamóttöku spítalans komu 268 sjúklingar. 55 sjúklingar fóru í skurðaðgerð á hverjum degi. Á hjartagátt komu 23 bráðveikir sjúklingar. Níu börn fæddust. Sjö sjúklingar fóru í hjartaþræðingu. Á gjörgæslu voru 11 sjúklingar. Á spítalanum vinna um 3.500 manns. Þannig má lengi telja.

Virðulegi forseti. Það sem við erum að tala um þegar við nefnum nauðsyn þess að mynda þjóðarsátt um að byggja nýjan spítala er að skapa þeim sem þurfa að koma á Landspítala betri aðstöðu. Hér hefur verið rætt um sýkingarhættu, einbýli og annað. Við skulum hafa í huga að það eru til sjúkrastofur þar sem sex einstaklingar liggja. Ég held að það sé hámarkið, mér er ekki kunnugt um annað. Við þurfum síðast en ekki síst að skapa betri aðstöðu svo að við getum tekið í notkun nýjustu og bestu tæki sem læknar nota í dag og verða að nota og vilja nota. Öðruvísi fáum við ekki nýtt fólk til starfa.

Virðulegur forseti. Þó að við ættum nóg af peningum til að kaupa ýmis tæki sem vantar á Landspítalann þá er ekki hægt að koma þeim inn í húsið út af lofthæð eða burði í gólfum. Við getum rétt ímyndað okkur ungt fólk sem er úti í hinum stóra heimi að mennta sig til læknis, hvort það getur komið inn í þau húsakynni sem við bjóðum upp á í dag, sem eru lek eins og við höfum séð myndir af. Þar hefur greinst myglusveppur og aðstaðan fyrir starfsfólk og sjúklinga er engan veginn í takt við það sem við viljum.

Þetta er málið í hnotskurn. Eins og ég segi þá trúi ég ekki öðru en okkur takist að mynda samstöðu á Alþingi á milli minni og meiri hluta í þessu máli, ég vil ekki segja stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég trúi ekki að allir 63 þingmenn geti ekki landað þessu máli, komið því áfram eftir þá tillögu sem samþykkt var í fyrra og var skýr yfirlýsing Alþingis um hvað alþingismenn vilja gera.

Eins og segir í greinargerð með þessari tillögu: Fjármögnunarvandinn er þröskuldurinn. Hér hafa verið ræddar margar tillögur eins og ég nefndi áðan. Ég hef rætt um lífeyrissjóðsleið og blandaða leið. Þess vegna segi ég hiklaust: Alþingi og við alþingismenn stöndum frammi fyrir því prófi núna að ræða saman og sýna þjóðinni að við getum þegar mikið á reynir myndað sátt um leið til að koma þessu þjóðþrifamáli áfram. Það verður verkefni okkar á næstu missirum að vinna þessari tillögu brautargengi, að vinna að samstöðu meðal allra þingflokka til að koma því þjóðþrifamáli áfram að mynda þjóðarsátt um byggingu nýs Landspítala.