144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

[10:33]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Eitt af þeim málum sem hér hefur verið hvað mest í umræðu upp á síðkastið er sá möguleiki sem felst í því fyrir Íslendinga að leggja sæstreng til Evrópu til að selja þangað rafmagn. Nýlega birtu sambönd evrópskra flutningsfyrirtækja niðurstöðu þar sem borin voru saman ein 100 orkuflutningaverkefni og niðurstaðan varð sú að íslenska verkefnið bar af varðandi möguleika á arðsemi.

Við höfum áður rætt þetta hér í þessum sölum. Í febrúar kom hæstv. iðnaðarráðherra með skýrslu hingað frá ráðgjafarhóp sínum um málið. Ein af niðurstöðum umræðunnar var hin sama og er að finna í 4. lið tillagna í þeirri skýrslu sem sömuleiðis var tekið undir í skýrslu Hagfræðistofnunar og laut að því að afar mikilvægt væri fyrir Íslendinga að hefja könnunarviðræður við bresk stjórnvöld og fá úr því skorið hverjir möguleikar Íslands væru. Það skipti til dæmis máli að komast að því hvort hægt væri að fá aðgang fyrir íslenska endurnýjanlega orku gagnvart hinu nýja ívilnunarkerfi Breta og fá upplýsingar um það hvort hægt væri að gera við þá langtímasamninga sem leiddu til fyrirsjáanlegs tekjustreymis sem aftur leiddi til þess að áhætta Íslendinga eða þeirra sem mundu eignast slíkan streng og reka væri lítil, hugsanlega engin. Þess eru nýleg dæmi að bresk stjórnvöld hafa gert slíka samninga við orkuframleiðslufyrirtæki sem eru í eigu aðila utan Bretlands.

Af þessu tilefni langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær hyggst hún hefja könnunarviðræður við Breta um slíkan streng?