144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

dómur Mannréttindadómstólsins í máli blaðamanns.

[10:52]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það er svo sem ekki miklu við þetta að bæta en ég held reyndar að það sé ýmislegt í okkar fjölmiðlaumhverfi og löggjöf í kringum það sem við þurfum að rýna. Það er líka þannig, hv. þingmaður, að í þessu eins og öllu öðru fylgir frelsi ábyrgð þannig að við þurfum líka að fara yfir það hvernig það allt saman virkar. En við eigum auðvitað að vera í stöðugri endurskoðun. Við áttum mikla umræðu, eins og menn muna, um fjölmiðlaumhverfi á sínum tíma. Kannski þurfa menn aftur að hefja þá umræðu. Miklar breytingar hafa orðið að undanförnu og við stöndum frammi fyrir dálítið nýjum veruleika í mörgum skilningi. Ég tek því undir það með hv. þingmanni að málið er eitthvað sem við þurfum að ræða og fara yfir og auðvitað viljum við tryggja að umhverfi fjölmiðla á Íslandi sé með sambærilegum og svipuðum hætti og gert er ráð fyrir annars staðar.