144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[11:26]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýði alltaf hæstv. forseta sem ég met meira en flesta menn í þessum sal. Þess vegna ætla ég að biðjast afsökunar á því að mér varð á sú ósvinna að láta út mér erlent orð. Vona ég að hæstv. forseti taki þetta sem fyrirheit um bætt líferni, alla vega héðan úr þessum stól.

Síðan er ég ekkert hissa á því að hæstv. forseti detti nokkur ár aftur í tímann og kalli mig iðnaðarráðherra, þó að fimm eða sex ár séu síðan ég var iðnaðarráðherra. En það sýnir það, sem mörgum okkar finnst, að núverandi ríkisstjórn og stjórnarlið er dálítið fast í gamla tímanum.

Hins vegar er ég glaður yfir því að vera ekki sá iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem ber fram þetta mál (Gripið fram í.) því að það er auðvitað sá ágæti ráðherra sem situr þarna á bekknum sem gerði það. Ef mér hefði verið kunnugt um að nokkurt mál sem ég hefði lagt fram væri svona vitlaust þá hefði ég komið og beðist afsökunar á því, það er kannski miklu meiri ástæða til þess.

En yfirbót hæstv. ráðherra var náttúrlega hálfu verri en hin upprunalega synd. Eina skýring hæstv. ráðherra á þessu er sú að það séu einhver önnur lög sem hafa sömu viðurlög líka. Þarna held ég að sé komið verðugt rannsóknarefni fyrir hv. þm. Frosta Sigurjónsson til að fara með smásjá sína yfir þau lög og leggja fram breytingartillögu um að minnka viðurlögin. Og þá ætla ég að halda áfram á þeirri samstarfsbraut sem hér er verið að malbika millum mín og hv. þingmanns, ef hann gerir það mun ég líka styðja hann í því.

Mér finnst sjálfsagt að hafa viðurlög og það er sjálfsagt að leggja fram mál sem leiða menn inn á betri veg, t.d. varðandi það að fara betur með orkuna, en herra trúr, að gera það með þessum hætti, það er umhendis svo ekki sé meira sagt. Það er náttúrlega bara klikkað, herra forseti.