144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[11:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er stundum við sérstakar aðstæður hægt að fallast á að menn eigi ekki annars kost en að skrifa undir samninga við erlent vald grátandi, eins og Árni Oddsson á Kópavogsfundinum. En hér eru færðar alveg nýjar upplýsingar inn í umræðuna. Ég og að ég hygg hv. þm. Frosti Sigurjónsson, sem höfum verið standandi hlessa yfir refsigleðinni í þessu frumvarpi, fáum alveg nýjar upplýsingar um að þetta sé ekki krafa frá EES heldur upplýsir hv. þingmaður mig og þingheim um að þetta sé heimasmíð. Með öðrum orðum er það íslensk uppfinning að ætla að veita grandvörum og góðum embættismönnum heimild til að sekta íslenska einstaklinga um allt að 500 þús. kr. á dag ef glugginn þeirra er ekki nægilega vel einangraður. Hvað kallar maður það? Er þetta ekki hringavitleysa? Er þetta ekki skrifræði sem er komið út úr öllu því sem hægt er að kalla skynsamlegt?

Ég segi það sem stuðningsmaður Evrópusambandsins að ég er ákaflega glaður að heyra það hér upplýst af talsmanni nefndarinnar að þessi vitleysa sé ekki ættuð frá Brussel. Hún er heimasmíðuð. Mér finnst engin rök í þessu máli að þetta hafi verið svona og enn síðri rök eru þau að starfsmenn Mannvirkjastofnunar séu svo vel af guði gerðir. Nú vill svo til að marga þeirra þekki ég, hef af þeim reynslu og ég er sammála því. Það breytir engu um það að þessi möguleiki er fyrir hendi og það er vel hugsanlegt að það dásamlega fólk sem er svona vel innréttað hjá Mannvirkjastofnun verði ekki þar til eilífðar. Það gætu komið einhverjir aðrir, jafnvel fyrrverandi alþingismenn. Ég veit ekkert um það.

Málið er að þetta er óskynsamleg regla. Rökin sem fyrir henni hafa verið færð eru engin nema þau að þau sé líka að finna í einhverjum öðrum lögum og eru þá jafn vitlaus þar. Hv. þingmaður ætti frekar að koma hingað og taka undir með mér og ráðast í þá vegferð sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson hefur hafið, að kroppa úr öllum lögum svona vitleysur.