144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[11:36]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að ég er fölskvalaus í trú minni á hið góða í manninum og það kann að stafa af því að ég hef umgengist framsóknarmenn mikið um mína ævi. Ég tel hins vegar að þetta sé mjög skrýtin lagasetning.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég þakka guði mínum fyrir að þessi vitleysa er ekki komin frá Evrópusambandinu. Þannig var hún kynnt upphaflega og það var eina skýring mín á því. Ég held að hv. þm. Frosti Sigurjónsson hafi líka haldið að þetta væri einhver vitleysa hjá einhverjum kontóristum í Brussel. Svo kemur bara í ljós að þetta er búið til í íslenskum ráðuneytum.

Það sem mér þykir verra er að mér sýnist að hin ágæta fagnefnd hafi farið um þetta skrýtnum höndum. Þetta er það sem ég kalla kranaþingmennsku, að taka við einhverjum fyrirmælum úr ráðuneytunum án þess að viðhafa gagnrýna hugsun og velta því upp hvort það sé sanngjarnt að mögulega sé hægt að refsa íslenskum einstaklingi, setja á hann dagsektir upp á hálfa milljón á dag af því t.d. að glugginn hans er ekki nógu vel þéttur. Það er dálítið skrýtið. Það er ekki í samræmi við veruleikann og alls ekki í samræmi við skoðanir sem hér hafa ítrekað komið fram frá stjórnarandstöðu en ekki síður frá stjórnarliðinu um að reyna að draga úr því sem kalla má eftirlitsiðnað. Þetta er eftirlitsiðnaður á hæsta stigi vegna þess að hann færir ekki ríkisvaldinu einungis möguleikana á því að fara og skoða koppa og kirnur og meira að segja hvernig glugginn er einangraður heldur lemja menn fast í hausinn með sekt sem enginn getur staðið undir. Þetta er ekki í hlutfallslegu samræmi við andlagið. Slík lög eigum við ekki að setja. Það er skoðun mín en að öðru leyti gef ég hv. þingmanni upp sakir. Ég sé að strax er kominn iðrunarsvipur á hann og það er alla vega upphafið að fyrirgefningunni.