144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

307. mál
[12:28]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé gott mál og eðlilegt að endurskoða lög um Ríkisendurskoðun af og til. Það er sérstaklega eitt sem vekur athygli mína og mig langar til að fjalla um hér. Það er það að í frumvarpsdrögunum var ekki gert ráð fyrir kröfum um sérstaka menntun ríkisendurskoðanda, að hann þyrfti að vera löggiltur endurskoðandi. Í frumvarpsdrögunum er því haldið opnu að fleiri geti sótt um og sett séu einhver hæfisskilyrði. Ég er því forvitin að vita hvað varð til þess að þessu var breytt og þá væntanlega í meðferð forsætisnefndar.

Í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins segir orðrétt í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Nefnd sú sem vann að undirbúningi frumvarpsins lagði til að ekki yrði gerð krafa um að ríkisendurskoðandi hefði löggildingu til þess að gegna embættinu. Var þar meðal annars horft til þess að störf ríkisendurskoðanda væru ekki takmörkuð við endurskoðunarstörf heldur tækju þau jafnframt til eftirlits með framkvæmd fjárlaga og ráðstöfunum á fjármunum ríkisins. Þá var enn fremur horft til þess að hjá systurstofnunum Ríkisendurskoðunar annars staðar á Norðurlöndum væri ekki gerð krafa um löggildingu.“

Ég held reyndar að krafa um löggildingu ríkisendurskoðanda, ef þannig má að orði komast, sé hvergi gerð í Vestur-Evrópu. Mér finnst því rétt að fá rökstuðning fyrir því hvers vegna við á Íslandi erum að þrengja svona mikið þann hóp umsækjenda sem getur sótt um þetta starf.

Þess má geta að í nefndinni sem samdi frumvarpið sátu tveir löggiltir endurskoðendur og voru á því að ekki ætti að gera þessa kröfu um löggildingu.

Það skiptir máli að ríkisendurskoðandi hafi þekkingu á ríkisrekstri og ríkisfjármálum og hann þarf að vera góður stjórnandi. Hann er í raun talsmaður skattgreiðenda. Hann þarf vissulega að njóta trausts og vera óumdeildur. Ég er ekki að segja að meðal löggiltra endurskoðenda sé ekki að finna þannig fólk, vissulega, en mér finnst þessi rök fyrir löggildingu afar veik.

Að því er mér skilst þá er það þannig annars staðar á Norðurlöndunum að ríkisendurskoðendur árita ríkisreikning þótt þeir séu ekki löggiltir endurskoðendur. Það er bara eitthvað sem menn ákveða í reglum. Ársreikningar hlutafélaga í eigu ríkisins þurfa hins vegar áritun löggilts endurskoðanda. Það eru að sjálfsögðu alltaf starfsmenn hjá Ríkisendurskoðun sem eru löggiltir endurskoðendur sem geta sinnt því.

Þetta er það sem mér finnst helst stinga í augu í þessu frumvarpi af því þetta tók breytingum. Ég vona að einhverjir muni hér í ræðum eða andsvörum koma inn á og rökstyðja hvers vegna við ein þjóða gerum þessa kröfu. Mér finnst þurfa að rökstyðja það.