144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

fjárhagsstaða RÚV.

[14:24]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að eiga frumkvæði að þessari umræðu en þó er sérkennilegt að hann skuli hefja mikla gagnrýni á núverandi hæstv. menntamálaráðherra eftir að hafa sjálfur haft tækifæri frá árinu 2007, allt það tímabil sem útvarpið hefur verið opinbert hlutafélag, til að ganga í þau mál sem hann nú vill og krefur hæstv. menntamálaráðherra um að gera.

Við skulum fara aðeins yfir staðreyndir málsins. Mér finnst menn stundum skauta dálítið létt yfir staðreyndir. Það er ljóst að frá því að Ríkisútvarpið varð opinbert hlutafélag hafa skattgreiðendur lagt fyrirtækinu til 26 þús. millj. kr. Ríkisútvarpið hefur haft að meðaltali 500 millj. kr. úr að moða í hverjum einasta mánuði frá þessum tíma. Samt sem áður hefur Ríkisútvarpið tapað 1,6 milljörðum kr. á því tímabili.

Samtals hafa tekjurnar með auglýsingum og fé frá skattgreiðendum numið 41 þús. milljónum. Engu að síður er fyrirtækið í raun nær gjaldþrota. Svo ætla menn að standa hér og telja að það leysi vandann að auka framlög til Ríkisútvarpsins um nokkur hundruð milljónir.

Það er blekking. Það þarf róttækan uppskurð og skipulagsbreytingar á Ríkisútvarpinu ef menn ætla ekki að sigla aftur í strand að nokkrum árum liðnum.

Það hefur verið ljóst í mörg ár að það stefndi í óefni. Þetta er ekki nýtt vandamál og ríkisendurskoðandi hefur staðfest að þessar upplýsingar hafa legið fyrir í mörg ár.

Eitt til viðbótar, það er mjög sérkennilegt að þegar menn tala um að auka fé til Ríkisútvarpsins skuli þeir ekki í neinu hafa áhyggjur af því hvort og þá hvernig slíkt hefur áhrif á starfsemi frjálsra fjölmiðla. (Forseti hringir.) Það er einmitt fjölbreytni í fjölmiðlum sem tryggir hér best frelsi og réttar upplýsingar en ekki (Forseti hringir.) ríkisrekstur í því formi sem nú er.