144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

fjárhagsstaða RÚV.

[14:29]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu sem er þörf eins og alltaf. Ríkisútvarpið hefur fylgt okkur allar götur síðan það var stofnað árið 1930. Það hefur fylgt okkur í gegnum súrt og sætt, flutt okkur alls konar fréttir, skemmt okkur og frætt okkur. Ríkisútvarpið er án efa ein merkasta menningarstofnunin sem þjóðin á og hefur átt. Það hefur alltaf verið til staðar þegar eitthvað hefur bjátað á og varað okkur við hvers kyns hættum. Það stendur vaktina og leiðir okkur í gegnum gleði og sorg.

Þess vegna er sorglegt hvernig stjórnmálamenn hafa hamast, og hamast stöðugt á þessari stofnun sem er okkur landsmönnum svona kær. Það virðist vera alveg sama hverjir fara með völdin, endalaust er RÚV talað niður og flest fundið því til foráttu. Starfsmenn eru vændir um að ganga erinda hinna og þessara stjórnmálaflokka eftir því hvað hentar í það og það skiptið.

Afskaplega athyglisverð tilraun var þó gerð á síðasta kjörtímabili til að breyta stjórn stofnunarinnar með það að markmiði að minnka afskipti stjórnmálamanna af henni. Sú tilraun var slegin af með eftirminnilegum hætti strax á vormánuðum þegar ríkisstjórn sjálfstæðismanna og framsóknarmanna tók við á síðasta ári. Síðan þá, og kannski jafnvel áður, má segja að mikil óvissa hafi ríkt um framtíð RÚV, mikil hagræðingarkrafa var gerð á nýja stjórnendur sem óhjákvæmilega leiddi til stórfelldra uppsagna. Meira að segja hafa sumir stjórnmálamenn ýjað að því að selja beri Rás 2 eða leggja hreinlega niður sem er ótrúlegt, ekki síst í ljósi þess að það er sú deild RÚV sem hefur alltaf staðið undir sér og gott betur.

Virðulegi forseti. Það verður að segjast að nýr útvarpsstjóri hefur sýnt mikið áræði og dug við að reyna að halda sjó og sinna lögbundnum skyldum stofnunarinnar. Hann hefur einnig verið óþrjótandi við að leita leiða til að grynnka á skuldunum og á hann og hans fólk hrós skilið fyrir einstakt æðruleysi í þeim hremmingum sem starfsmenn og stofnunin sjálf hafa mátt glíma við. Nú stendur upp á hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórn að segja þessum starfsmönnum og þjóðinni allri hvað þau hyggjast gera við þessa merku stofnun. Lengra verður ekki gengið í niðurskurði og ég tek undir með útvarpsstjóra sem segir að haldist nefskatturinn óbreyttur og gangi allur til stofnunarinnar sé hægt að reka hana svo sómi sé að.