144. löggjafarþing — 25. fundur,  3. nóv. 2014.

húsnæðismál Landspítalans.

[15:20]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Hv. þm. Árni Páll Árnason getur bara beðið um orðið þegar hann þarf á því að halda. Ég vil aðeins nefna í þessu sambandi að hér kallar fólk eftir því að fá aðild að því að fullnusta ákveðna samþykkt sem Alþingi Íslendinga gerði á síðasta vori. Forgöngumenn þessa máls, þeirrar ályktunar sem hér er borin upp, að setja einhverja verkstjórn yfir ríkisstjórnina í þessu máli, er sama fólk og hafði fjögur ár til að koma byggingaráformum Landspítalans á einhvern annan og vitlegri stað en var þegar þessi ríkisstjórn tók við.

Á þeim skamma tíma sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur starfað er í fyrsta skipti lagt á fjárlögum fjármagn til (Gripið fram í.) þess að vinna að framgangi hönnunar spítalans. Það er merkur áfangi. Það tókst ekki á síðasta kjörtímabili vegna þess að þá var verið að rífast um það, af þáverandi ríkisstjórnarflokkum, hvort ætti að vera með þetta í einkaframkvæmd eða opinberri framkvæmd. Þeirri rimmu lauk í fyrravor og lögin tóku gildi í september á síðasta ári.