144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

rannsóknir á fiskstofnum á miðsævisteppinu milli Íslands og Grænlands.

201. mál
[17:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Félagshyggjumaðurinn og hæstv. ráðherra segir að markaðurinn eigi að sjá um þetta. Þarna er markaðsbrestur, það hefur áður gerst.

Nú ætla ég að rifja upp tvær tegundir sem Íslendingar hafa gert sér mikil verðmæti úr á síðustu áratugum. Önnur var kolmunninn. Menn voru nú ekki bjartsýnir á það að kolmunninn gæti orðið nytjategund einmitt vegna þess að hún er, eins og þær tegundir sem hæstv. ráðherra nefndi áðan, ákaflega smávaxinn þorskfiskur. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að á þeim tíma lögðu fyrirtækin mikið á sig, tóku mikla áhættu og þróuðu þær veiðar eiginlega ein og sjálf. Það var af þeim sökum sem ég missti einu sinni út úr mér yfir þennan ræðustól að ég teldi að undanþiggja mætti kolmunnann veiðigjaldi. Það er nú önnur saga.

Hins vegar er það svo með úthafskarfann sem menn voru og eru að veiða á Reykjaneshryggnum að ekki dugði til að hafa þrótt frumkvöðlanna innan útgerðarinnar. Það þurfti atbeina ríkisins sem kom að því með ýmsum hætti. Til dæmis varð þá til hugtakið „tilraunaveiðikvóti“ og menn greiddu eiginlega með þeim útgerðum sem fóru út í þetta.

Ég legg áherslu á að þarna eru mikil verðmæti. Hæstv. ráðherra taldi upp annálaða rummunga sem hugsanlega gætu reynt að helga sér rétt í þessum stofnum utan lögsögunnar. Þess vegna er svo mikilvægt að helga sér réttinn með einhvers konar tilraunaveiðum.

Hæstv. ráðherra vanmetur sjálfan sig, fortöluhæfileika og afl framkvæmdarvaldsins ef hann heldur að það skipti ekki máli hvort hann sem sjávarútvegsráðherra reyni að ýta á LÍÚ, sem er auðvitað, eins og kapítalisminn alltaf er, með allt of skamma sjón fram í tímann. Ég hvet hann því til þess að láta ekki sitt eftir liggja til að Íslendingar tapi ekki af þeirri (Forseti hringir.) auðlind sem þarna er.