144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

útvarpssendingar í Kelduhverfi og Öxarfirði.

222. mál
[18:08]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og taka fram að ég byggi svar mitt við henni á þeim upplýsingum sem ráðuneytið aflaði hjá Ríkisútvarpinu í tilefni fyrirspurnarinnar.

Um síðastliðin áramót fell niður mastur Ríkisútvarpsins á Viðarfjalli. Með því duttu út útsendingar Rásar 1 og Rásar 2 í Kelduhverfi og í Öxarfirði, eins og hv. þingmaður hefur rakið. Móttökusvæðið á austanverðu Tjörnesi og viðtaka á endurvarpsstaðnum Auðbjargarstaðabrekku og Kópaskeri, sem er með viðtöku frá Auðbjargarstaðabrekku, eru háð útsendingum frá Viðarfjalli. Til þess að bæta endurvarpsstaðinn á Auðbjargarstaðabrekku og áfram til Kópaskers var í byrjun árs tekið merki, fyrst í stað á varaviðtöku útvarpssendinga frá Gagnheiði en skömmu síðar var því breytt til að bæta gæði útsendinganna og var viðtaka þá tekin í gegnum myndlykil sem notar sjónvarpsdreifikerfið frá Smjörhólsfelli. Af þeim sökum virkaði svokölluð RDS-tækni ekki á þessu svæði, en hún gerir útvörpum kleift að skipta sjálf um stöðvar og bætir þar með móttöku hlustenda.

Í byrjun júní var skipt út biluðum FM-loftnetum á Húsavíkurfjalli fyrir ný, einnig til þess að bæta útsendingarskilyrði á svæðinu. Þá reisti Neyðarlínan nýtt mastur á Viðarfjalli. Um miðjan ágúst voru ný FM-net sett upp ofarlega í mastri Neyðarlínu á Viðarfjalli, sem þjónar m.a. Kelduhverfi og Öxarfirði. Þá var í Auðbjargarstaðabrekku skipt út láréttum netum og sett upp hringnet og gömlu netin henta vel fyrir móttöku loftneta á húsum, en hin nýju net henta betur móttöku í bæði bílum og húsum. Þetta stórbætir því dreifingu FM-merkja Ríkisútvarpsins í Öxarfirði, sérstaklega fyrir bílaumferð.

Virðulegi forseti. Eftir að gos í Holuhrauni hófst þann 29. ágúst síðastliðinn hefur þetta verið gert til að bæta útvarpssendingar Ríkisútvarpsins: Á Húsavíkurfjalli hafa sendar Rásar 1 og Rásar 2 verið settir á fast samband í stað þess að vera á endurvarpi. Slíkt eykur öryggi útsendinganna. Húsavíkurfjallssendar voru áður endurvarp frá Goðafossi en vegna hættu á að sendar sem eru staðsettir á Goðafossi fari undir vatn ef flæðir niður Jökulsdalsá vegna mögulegra eldsumbrota í Bárðarbungu var FM-viðtaka Skollahnjúka færð frá Goðafossi yfir á Húsavíkurfjall 20. september. Þá fékk Auðbjargarstaðabrekka FM-viðtöku frá Viðarfjalli eftir að ný net voru komin upp í Viðarfjallsmastri og RDS-tækni komið á þann 27. september síðastliðinn.

Í áætlun Ríkisútvarpsins um frekari úrbætur á svæðinu til að bæta frekar skilyrði við Kópasker er að FM-sendar verði fluttir yfir á Snartstaðanúp við Míluhús sem stendur hærra í landi og sendir betur út yfir Öxarfjörðinn yfir á Auðbjargarstaðabrekku sem mun stórauka útsendingarskilyrði á svæðinu. Jafnframt er gert ráð fyrir að stækka senda úr 100 vöttum yfir í 500 vött sem mun bæta skilyrði fyrir útvarpssendingar enn frekar. Vona ég, virðulegi forseti, að þetta hafi skýrt málið að nokkru fyrir hv. þingmanni.