144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Herra forseti. Okkur er hollt að spyrja grundvallarspurninga í störfum okkar. Í ljósi þeirrar óánægju sem birtist hér í gær, undir yfirskriftinni „hlaðborð mótmæla“ er ég kominn að þeirri grundvallarspurningu hvort það sé virkilega gott að búa á Íslandi.

Við reynum eðlilega (Gripið fram í: Við viljum ekki …) að svara þeirri spurningu með því að leita í efnislega mælikvarða. Við tölum um aukinn kaupmátt, verðstöðugleika, minnkandi atvinnuleysi. Við bendum líka á aðgerðir ríkisstjórnarinnar í því samhengi, leið skattalækkana, sáttaleið um auðlindir hafsins, skuldaleiðréttingu. Hinn endanlegi mælikvarði árangurs er svo aukinn hagvöxtur. Hagvöxtur er ýmist orsök eða forsenda. Í öllu falli er hér hagvöxtur og horfur góðar.

Hvað með almenna líðan, velmegun og tækifæri sem felast í því að búa hér? Það er viðkvæmt orsakasamhengi þarna á milli hinna félagslegu vídda og hagvaxtar. Til er mælikvarði sem mælir þetta samband efnahagslegrar og félagslegrar þróunar. Mælikvarði sem gefur til kynna getu okkar til að mæta grundvallarþörfum og byggja upp grunnstoðir sem veita okkur tækifæri til að auka lífsgæði og viðhalda þeim og nýta tækifæri okkar til fullnustu. Á slíkum mælikvarða mælumst við í 3. sæti í heiminum. Á undan Noregi, á eftir Sviss og Nýja-Sjálandi.

Hér er gott að búa, en hin pólitíska áskorun felst í þeirri staðreynd að hagvöxtur án félagslegra framfara leiðir til óánægju og samfélagslegrar ókyrrðar og við eigum (Forseti hringir.) að mæta þeirri pólitísku áskorun. (ÖS: Hvað gerir … á móti Sjálfstæðisflokknum?)