144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

31. mál
[15:59]
Horfa

Flm. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir breytingum á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna hvað varðar endurgreiðslu lána og niðurfellingu.

Frumvarpið er í nokkrum greinum og meginbreytingarnar fela í sér í fyrsta lagi að lán falli niður við 67 ára aldur lántaka. Það er breyting á 7. gr. laganna og kveður breytingin á um það að greiða skuli af námsláni þar til skuldin er að fullu greidd eða lánþegi fellur frá. Þó skal heimilt að fella niður eftirstöðvar skuldabréfs að hluta eða í heild vegna langvarandi veikinda, fötlunar eða örorku skuldara. Þetta er nýmæli. Hingað til hefur það ekki verið heimilt, en heimilt hefur verið að veita undanþágu frá greiðslu á ári hverju. Það er líka gert ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um útfærslu á þessu ákvæði.

Svo kemur ákvæðið sjálft um þá meginreglu að námslán skuli ætíð falla niður á því ári sem skuldari nær 67 ára aldri. Hann skal vera í skilum við sjóðinn og hafa tekið lánið fyrir 54 ára aldur. Það er þó gert ráð fyrir því að ef stofnast hefur til vanskila innan þriggja almanaksára á undan því ári er skuldari nær 67 ára aldri sé heimilt að afskrifa og fella niður þá fjárhæð skuldarinnar sem eftir stæði hefði skuldari verið í fullum skilum.

Í öðru lagi er kveðið á um breytingu á 6. gr laganna og það varðar ábyrgðarmenn. Ábyrgð ábyrgðarmanns fellur niður þegar hann nær 67 ára aldri, enda sé lánþegi í fullum skilum við sjóðinn og ábyrgðarmaður hafi gengist í ábyrgð fyrir láni fyrir 54 ára aldur. Þarna er sama reglan um að ef til kröfunnar hafi stofnast innan þriggja almanaksára á undan því ári er ábyrgðarmaður nær 67 ára aldri sé þó heimilt að afskrifa og fella niður þá fjárhæð ábyrgðarinnar sem eftir stæði hefði skuldari verið í fullum skilum.

Svo er hér mjög mikilvæg breyting og hún er nauðsynleg eftir að innheimtureglum var breytt hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hún hljóðar svo: Við fráfall ábyrgðarmanns falla niður þau lán sem hann hefur gengist í ábyrgð fyrir.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að breytingar á lögunum taki strax gildi. Í því er jafnframt það ákvæði til bráðabirgða að skuldarar sem þegar hafa náð 67 ára aldri við gildistöku laga þessara skulu fá niðurfelldar eftirstöðvar námslána sinna eins og staða þeirra er við gildistökuna.

Þetta frumvarp hefur verið flutt nokkrum sinnum á Alþingi, fyrst af Lilju Mósesdóttur og nú hef ég tekið við því kefli og flyt það öðru sinni. Ég ætla að fara yfir ástæður fyrir því að mikilvægt er að breyta lögunum í samræmi við frumvarpið. Ég fer fyrst í regluna um 67 ára aldurinn.

Samkvæmt núgildandi lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna falla námslán ekki niður fyrr en við andlát lántakanda. Hér á landi hefur þróunin orðið sú að námslánaskuldir fylgja einstaklingum lengra og lengra fram eftir aldri. Í tengslum við kjarakönnun fyrir árið 2013 kannaði BHM stöðu félagsmanna sinna gagnvart Lánasjóði íslenskra námsmanna. Þar kom í ljós að 86% svarenda höfðu tekið námslán, að 57% þeirra eru enn að greiða af lánunum og að um helmingur þeirra telur endurgreiðslurnar íþyngjandi eða verulega íþyngjandi. Endurgreiðslan samsvarar þriggja vikna tekjum á hverju hausti. Einnig kom í ljós að konur greiða lán sín hægar upp en karlar, enda laun þeirra almennt lægri og endurgreiðslur tekjutengdar. Fjárhæðir lána eru hins vegar ámóta hjá báðum kynjum, þ.e. höfuðstóll skuldarinnar, eða ekki höfuðstóll skuldarinnar, hún hækkar nú meira eftir því sem minna er greitt af, en þau lán sem tekin hafa verið, lítill munur er á því milli kynjanna. Svör úr könnuninni benda til þess að 22% svarenda verði enn að greiða af námslánum þegar eftirlaunaaldri er náð.

Í frumvarpinu er lagt til að námslán falli niður á því ári sem skuldari nær 67 ára aldri að því tilskildu að hann sé í fullum skilum við sjóðinn. Þetta á við í tilfellum þar sem skuldari hefur ekki náð að greiða upp námslán sitt við 67 ára aldursmarkið þegar flest launafólk hefur töku lífeyris, en samkvæmt upplýsingum frá LÍN er meðaluppgreiðslutími námslána um 20 ár. Hafi skuldari lent í vanskilum við sjóðinn á síðustu þremur almanaksárum á undan því ári er hann verður 67 ára er gert ráð fyrir að heimilt sé engu síður að afskrifa lánið, eins og ég fór yfir áðan. Er með þessu móti komið til móts við þá skuldara sem geta lent í erfiðleikum þegar þeir nálgast eftirlaunaaldurinn auk þess sem reistar eru skorður við því í frumvarpinu að stjórn sjóðsins gjaldfelli allt lánið með stoð í 3. mgr. 11. gr. laganna á nefndu þriggja ára tímabili vegna verulegra vanskila. Þá er það skilyrði að námslán hafi verið tekið fyrir 54 ára aldur til þess að koma í veg fyrir að einstaklingar sem hefja lánshæft nám skömmu fyrir 67 ára aldur fái það fellt niður án þess að hafa greitt það niður svo nokkru nemi.

Það skal játast að það er ekki nein sérstaklega vísindaleg ástæða fyrir þessu aldurstakmarki, það tekur mið af því sem fram kemur í löggjöfinni í Svíþjóð. Þetta er því ekki heilagt aldursviðmið en ég taldi rétt að hafa aldursviðmið, enda er um það umfangsmikla breytingu að ræða þegar lánin falla niður við 67 ára aldur að eðlilegt er að reisa einhverjar skorður við því hvað getur fallið undir það.

Svo kemur að heimildinni til þess að fella lánið niður, þ.e. vegna langvarandi veikinda, fötlunar og/eða örorku.

Þessi heimild á að sjálfsögðu við þau tilfelli þar sem langvarandi veikindi, fötlun eða örorka hefur verulega áhrif á aflahæfi og greiðsluhæfni skuldara til framtíðar. Þykir eðlilegt að slíkt úrræði sé til staðar, en gert er ráð fyrir að mennta- og menningarmálaráðherra setji reglugerð um frekari skilyrði til niðurfellingar og framkvæmd lánasjóðsins á slíkum niðurfellingum og ákvarðanatöku við þær.

Á Norðurlöndum eru slíkar niðurfellingarheimildir þekktar, t.d. í Noregi þar sem heimilt er að fella niður námslán þegar það er sanngjarnt vegna langvarandi sjúkdóma eða örorku. Þar er einnig í lögunum reglugerðarheimild til nánari útfærslu á fyrirkomulaginu. Í Svíþjóð eru nú í gildi ákvæði sem fela í sér að heimilt er að fella niður lán ef sérstakar ástæður standa til þess.

Svo vil ég koma inn á fráfall ábyrgðarmanns.

Í frumvarpinu er lagt til að við fráfall ábyrgðarmanns falli niður þau lán sem hann hefur gengist í ábyrgð fyrir. Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna voru í maí á þessu ári 30 lán í innheimtu þar sem erfingjar eða dánarbú voru að greiða af námslánum. Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóðnum er um að ræða mál þar sem aðilar hafa gengist við ábyrgð og samið um uppgjör. Ekki er að öðru leyti haldið utan um upplýsingar um þau lán þar sem erfingjar eða dánarbú eru greiðendur. Það skal tekið fram að stutt er síðan farið var að innheimta hjá erfingjum lán sem fallið höfðu á ábyrgðarmenn og er þetta mjög íþyngjandi og kemur oft og tíðum í höfuðið á fólki sem óvænt skuldbinding.

Frumvarpið er að mestu leyti byggt á löggjöf á Norðurlöndum. Það ber hins vegar að hafa í huga að námsaðstoðarkerfi Norðurlandanna er sett upp með nokkuð öðrum hætti en hér á landi. Þar byggist kerfið á samsetningu styrkja og lána. Í Noregi verður lán í flestum tilvikum að vera uppgreitt á 20 árum og þegar lánþegi verður 65 ára. Í Danmörku verða lánin að vera endurgreidd á innan við 15 árum. Þetta virðist vera stuttur endurgreiðslutími, en lánin eru aðeins um þriðjungur af heildaraðstoð sem nemandi fær. Í Svíþjóð eru 2/3 hlutar aðstoðar í formi lána og meginreglan er sú að endurgreiðslutími þeirra skuli ekki vera lengri en 25 ár. Frá þeirri reglu eru ákveðnar undantekningar og lán afskrifuð við vissan aldur. Þar er einnig að finna aldurstakmörk á veitingu lána sem er 54 ár og sambærilegar reglur og hér er lögð til varðandi vanskil á síðustu þremur árum fyrir 67 ára aldurinn.

Hvað varðar niðurfellingar og afskriftir af lánum vegna veikinda, fötlunar eða örorku er, eins og áður hefur komið fram, að finna slíka niðurfellingarheimildir í bæði Noregi og Svíþjóð.

Verði þetta frumvarp að lögum er um mikla réttarbót að ræða fyrir skuldara námslána. Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna voru 1. nóvember 2014 155 skuldarar yfir 66 ára aldri og skulduðu í heildina um 576 millj. kr. Skuldarar á aldrinum 61–65 ára voru 347 með heildarskuldir upp á tæplega 1.243 milljónir. Skuldarar á aldrinum 50–60 ára voru 4.977 með heildarlán upp á rúmlega 20 milljarða kr. Það ber að veita því eftirtekt að megnið af þeim 20 milljörðum eiga þessir lántakar eftir að greiða af á næstu 5 til 15 árum.

Meðaluppgreiðslutími lána sem veitt voru árin 1992–2005 er 13 ár og meðallán hjá sjóðnum á þessu tímabili er 2.270 millj. kr. Meðaluppgreiðslutími lána sem veitt voru frá árinu 2005 er 24 ár og meðallán hjá sjóðnum á þessu tímabili 2.681 millj. kr. Af þessum tölum má ætla að við gildistöku laganna muni hátt í 576 millj. kr. verða afskrifaðar hjá sjóðnum. Tekið skal fram að meginreglan sem felst í frumvarpi þessu nær einungis til þeirra sem standa enn í skuld við sjóðinn við upphaf þess árs er þeir ná 67 ára aldri. Þeir sem hafa þegar greitt upp lán sín munu ekki njóta hagræðis af þessari breytingu, en í bráðabirgðaákvæðinu er gert ráð fyrir að það sem eftir stendur hjá þeim sem eru orðnir 67 ára falli niður.

Þar sem árleg endurgreiðsla námslána er miðuð við heildartekjur viðkomandi einstaklings má ætla að tekjuhærri einstaklingar hafi náð að borga stærstan hluta eða allt lán sitt. Sú breyting sem frumvarpið mælir fyrir um nær því fyrst og fremst til tekjulægri einstaklinga sem og þeirra sem hafa verið lengur í námi. Fram til ársins 1982 var endurgreiðslutími námslána að hámarki 20 ár. Það tímabil var tvöfaldað í 40 ár með lögum nr. 72/1982, og 10 árum síðar með lögum nr. 21/1992 varð lánstíminn ótakmarkaður og skyldu lánin greiðast upp að fullu, en falla þó niður við andlát lántaka. Með þessu frumvarpi er lagt til að námslán falli niður við 67 ára aldur, enda er þá heimilt að sækja um ellilífeyri og tengdar greiðslur til Tryggingastofnunar ríkisins.

Lánasjóður íslenskra námsmanna er félagslegur sjóður sem hefur það markmið að tryggja jafnrétti til náms óháð efnahag. Margt hefur breyst á þeim rúmu 20 árum sem liðin eru frá því lögin voru endurskoðuð síðast og fyrrverandi menntamálaráðherra lagði einmitt fram frumvarp að nýjum heildarlögum undir lok síðasta kjörtímabils sem varð þó ekki að lögum, enda kom það mjög seint fram. Þar var gert ráð fyrir að tekið yrði upp styrkjakerfi til náms, en Ísland sker sig úr gagnvart öðrum Evrópuríkjum og er eina landið í Evrópu þar sem styrkir til háskólanáms tíðkast ekki. Mun algengara er nú en áður að fólk ljúki fleiri en einni háskólagráðu. Nám í sumum greinum hefur lengst, eins og t.d. kennaranám, og launakjör í sumum stéttum eru þannig að þau duga vart til að greiða upp námslán á starfsævinni.

Þetta frumvarp er aðeins millileikur og nauðsynlegt sem slíkt. Til lengri tíma verður að endurskoða lögin og koma á styrkjakerfi af einhverju tagi. Ísland er eitt Norðurlandanna sem ekki býður upp á námsstyrki, aðeins námslán. Þá eru framvindukröfur LÍN nú orðnar með þeim ströngustu sem viðgangast á Norðurlöndunum.

Þá er í lokin eðlilegt að benda á að í þeirri stóru millifærslu sem nú er fram undan til að lækka höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána gerir ríkisstjórnin ekki ráð fyrir að lækka höfuðstól verðtryggðra námslána. Þó má segja að þau verði enn harðar fyrir barðinu á verðbólgu, því að ef fólk er tekjulágt gengur seint á höfuðstólinn og fjármagnskostnaður verður þar af leiðandi hærri og lánstíminn lengist. Mun fleiri verða því í þeirri stöðu að geta ekki greitt upp námslánin sín á starfsævinni. Því er nauðsynlegt að löggjafinn bregðist við. Þetta er réttlætismál og jafnframt velferðarmál, því að fólk sem hefur ekki nógu háar tekjur á starfsævinni til að greiða upp námslánin sín er með lágar tekjur í ellinni, lífeyrisréttindi þeirra eru minni en þeirra tekjuhærri. Þá þýðir það ekki aðeins að viðkomandi hafi haft lægri starfstekjur heldur er hann með lægri ellilífeyri og þarf að auki að greiða 12. hluta sinna ráðstöfunartekna árlega til greiðslu af námsláni.

Mér finnst ljóst af þessari yfirferð að þetta er algjörlega tímabær breyting. Við gengum of langt, vil ég meina, í því að lengja lánstíma námslána. Eins og ég fór yfir er hann miklu lengri hér en annars staðar á Norðurlöndunum. Lánasjóður íslenskra námsmanna hættir að vera sá sjóður sem honum er ætlað að vera, sem á að tryggja jafnrétti til náms óháð efnahag, ef ákveðinn hópur festist í skuldafeni ævina á enda. Verði honum á í messunni og ábyrgðarmaður taki á herðar sér lánið geta erfingjar hans setið í súpunni áratugum síðar. Þetta er ekki félagslegt jöfnunarkerfi. Þetta er eitthvað allt annað.

Nú hafa mjög margir haft samband við mig eftir að ég lagði þetta frumvarp fram og ekki síst vegna ábyrgðarmannaþáttarins, en líka konur sem voru með tiltölulega lágar tekjur á starfsævinni og eru komnar á ellilífeyri og eru að greiða af lánunum sínum. Ég hef velt því fyrir mér og mun óska eftir því að nefndin skoði það hvort ekki sé eðlilegt að í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna — það er auðvitað ráðherra sem velur þar inn og þar eru fulltrúar námsmanna sem eðlilegt er, enda er sjóðurinn ætlaður námsmönnum — væru líka greiðendur námslána, að þeir ættu sinn málsvara þarna inni, því að breytingar á reglum Lánasjóðsins geta haft mjög afdrifarík áhrif fyrir þá sem eru að greiða af lánum sínum.

Hæstv. forseti. Ég legg til að þetta mál fari til allsherjar- og menntamálanefndar að umræðu lokinni.