144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram að ræða aðeins vinnubrögðin hérna á Alþingi. Ég talaði um það í gær hvernig önnur þjóðþing gera tilraun til að áætla ræðutímann og virðist takast það ágætlega. Það er auðvitað nauðsynlegt til að geta búið til eitthvert plan fram í tímann. Þetta gætum við gert, en við gerum í raun enga tilraun til þess að meta lengd umræðu. Við í mínum þingflokki höfum til dæmis aldrei verið spurð hvað við áætlum að tala lengi í ákveðnu máli. Við gætum svarað því nokkuð nákvæmlega en við erum aldrei spurð. Við erum kannski sátt við það hér á þessari stundu að vita ekki einu sinni hvað er á dagskrá þingsins á morgun. Ég hélt að við á Alþingi ættum að vera í fararbroddi þegar kemur að vönduðum vinnubrögðum.

Mörgum hér verður tíðrætt um aga og þá oftast í tengslum við fjárreiður ríkisins. Agi snýst ekki bara um að eyða minna en við öflum, agi snýst um skipulag, snýst um að mæta stundvíslega, virða tíma annarra og nýta tímann best. Agaleysi er dýrkeypt.

Ég velti fyrir mér hvað agaleysi hér á þinginu kosti. Hvað kosta kvöld- og næturfundir sem þekkjast ekki annars staðar nema þá kannski þetta eina dæmi frá Finnlandi sem ég nefndi í gær frá 1993 þegar sá fáheyrði atburður varð að það skall á málþóf? Skipulagsleysi er bæði dýrt og gerir að verkum að vinnubrögðin verða verri en þau þyrftu að vera.

Hvaða rétt höfum við líka á því að draga starfsfólk Alþingis með okkur í ruglið? Af því að við getum ekki skipulagt okkur er fólk hér á næturvöktum trekk í trekk þegar líður að þinglokum eins og það sé ekkert mál. Við þingmenn erum röflandi eitthvað hér á nóttunni í desember engum til gagns eða ánægju. Svo erum við rosalega hissa á því að fólk beri lítið traust til Alþingis. Þingmenn hafa í gegnum tíðina gagnrýnt þessi vinnubrögð, ég er ekkert að stíga einhver ný skref í því. Fyrrverandi hv. þm. Siv Friðleifsdóttir flutti nokkrum sinnum frumvarp um þetta og með henni margir ágætir þingmenn. Ég er að skoða það mál, hvort eigi að flytja það aftur. Síðan hefur þingskapanefnd líka unnið, held ég, gott starf og ég hvet til þess að hún hefji störf aftur sem fyrst. (Forseti hringir.)

Svo bíð ég enn eftir að aðrir hv. þingmenn taki þátt í þessari umræðu.