144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

verkfall lækna.

[11:24]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og fleiri þakka ég hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að taka þetta mál hér upp í dag. Í því er mikill alvarleiki þegar læknar á þjóðarsjúkrahúsinu okkar ákveða að fara í verkfall. Eins og hér hefur verið rakið hefur það gríðarleg áhrif, ekki bara á lækna sem þar starfa heldur um allt kerfið okkar. Það er mjög sorglegt að til þessa hafi þurft að koma til að vekja ríkisstjórnina upp af þyrnirósarsvefni. Þetta er búið að vofa yfir í töluverðan tíma og því miður hefur ekki verið brugðist nægilega vel við.

Hér hefur verið rætt um launin, aðbúnaðinn og hvað það er sem veldur því að læknar fást ekki til starfa. Það hefur löngum loðað við umræðuna að læknar hafi góðar tekjur, er það með þá eins og marga aðra að grunnlaunin þeirra eru í kringum 340 þúsund, með læknaleyfi eru þeir með 370 þúsund. Eftir 14 ára starf sem sérfræðingar eru þeir með 595 þúsund. Svo þurfa þeir að standa bakvaktir til að heildarlaunin verði hærri. Þetta kemur fram í grein í nýjasta Læknablaðinu.

Virðulegi forseti. Það er auðvitað hægt að gera að umtalsefni þann aðbúnað sem Landspítalinn okkar býr við og við höfum rætt hér ítrekað. Hann stendur frammi fyrir ónothæfum lyftum, mygluðum herbergjum og slakri aðstöðu sjúklinga. Nýverið sagði fjármálaráðherra að hann ætlaði að byggja nýjan Landspítala á kjörtímabilinu eða hefja bygginguna. Það er bara ekki nóg, það þarf að bregðast við þessu núna. Við megum ekki tala um velferðarþjónustuna sem bákn eins og sumir hv. þingmenn hafa gjarnan gert sem um þessi mál hafa rætt.

Því miður er þetta fram undan eins og ég segi. Af því að hér var minnst á einkarekstur er því ekkert að leyna að í umræðunni hefur borið á því að sumir þingmenn og ráðherrar telja hann góða leið, (Forseti hringir.) en ég tek undir með Tómasi Guðbjartssyni sem sagðist (Forseti hringir.) lýsa, ásamt læknum á Landspítalanum almennt, yfir harðri andstöðu við slíkt.