144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

loftslagsmál.

[14:51]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við Íslendingar göngum þannig á gæði vistkerfisins með fótspori okkar að ef aðrir jarðarbúar hegðuðu sér eins þyrftum við tíu jarðir til að mæta þörfum okkar. En við eigum bara eina jörð og þess vegna þurfum við að grípa til aðgerða. Það er gott að forsætisráðherra gefur afgerandi yfirlýsingar á alþjóðavettvangi, en það er kallað eftir því að þeim sé fylgt eftir af alvöru af ríkisstjórn Ísland með því að setja hærri markmið, með því að gera metnaðarfyllri áætlanir og með því að setja fjármuni á bak við yfirlýsingar forsætisráðherra. Ríkisstjórnin, heyri ég á umræðunni, mun fá stuðning úr öllum flokkum á Alþingi við slíka tillögugerð. Ég hvet hæstv. umhverfisráðherra til að hafa forgöngu um hana.

Ég vek athygli á því að vísindamenn hafa ekki málað skrattann á vegginn í þessari umræðu. Ef eitthvað er þá hafa þeir tekið of varlega til orða. Sú skýrsla sem kynnt var á sunnudag tók ekki með í reikninginn þær breytingar sem menn sáu á ísnum á suðurskautinu í maí síðastliðnum. Það er þess vegna rík ástæða til þess að taka aðvaranir þeirra mjög alvarlega. Þegar menn tala um að okkar framlag sé lítið eða maðurinn megi sín lítils við hliðina á stóru eldgosi, þá er það hinn mannlegi þáttur í losun gróðurhúsalofttegunda sem ríður baggamuninn. Það er dropinn sem fyllir mælinn. Þess vegna sjáum við nú gildi sem hafa ekki sést á jörðinni í átta hundruð þúsund ár. Ef það vekur okkur ekki til verka hvað gerir það þá?