144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:49]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég treysti á að hæstv. ráðherra tryggi jafnræði á milli byggðarlaga og uppbyggingu iðnaðarsvæða.

En annað stórt mál er í frumvarpinu. Það kemur fram að gert hafi verið ráð fyrir því að samningur við sérgreinalækna yrði greiddur af sjúklingum, en þar sem sú reglugerð hafi ekki verið tilbúin þurfi að bæta við 1,1 milljarði kr. Það var sem sagt þannig að sjúkir áttu ekki að hafa ávinning af þessum samningi heldur áttu þeir að greiða áfram það verð sem læknar settu upp. Reglugerðin var ekki tilbúin en skýrt er tekið fram í fjáraukalögum að gert sé ráð fyrir að það muni gerast á árinu 2015.

Greiðsluþátttaka sjúklinga hefur hækkað mjög mikið á þessu ári, eða um 611 millj. kr. Er það rétt skilið hjá mér að greiðsluþátttaka sjúklinga í heilbrigðiskerfinu muni enn hækka á árinu 2015?