144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[15:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Örfáar athugasemdir. Í fyrsta lagi finnst mér ákveðin þversögn í því fólgin hjá hv. þingmanni að rifja hér upp ríkisreikning fyrir árið 2013 og segja heildarafkomuna hafa verið í samræmi við væntingar þegar þar komu til sögunnar, í endanlegu uppgjöri, verulegar einskiptistekjufærslur einmitt vegna viðskipta eða afhendingar á hlutabréfum í Landsbankanum. En síðan þegar á að horfa á árið 2014 er raunverulegur afkomubati afskaplega lítill vegna þess að þá er rétt að horfa fram hjá einskiptistekjunum. Annaðhvort horfum við á þessi mál með eða án einskiptistekna. Ef við horfum fram hjá þeim árið 2013 var afkoman undir væntingum en ef við tökum þær með þá vorum við um það bil í jöfnuði, rétt undir því að vera með heildarjöfnuð. Á þessu ári stefnir í nokkuð góðan afgang, að miklu leyti vegna einskiptistekna.

Ég hef alltaf haldið því vel til haga og legg mikla áherslu á það að útskýra hvers vegna frávikin sem birtast hér í heildarafkomunni eru. Þau eru að stærstum hluta til vegna einskiptistekna.

Frumvarpið vegna Seðlabankans var afgreitt í ríkisstjórninni í morgun og verður lagt fram á allra næstu dögum. Það er að uppistöðu til sama frumvarp og var hér til umræðu á vordögum með nokkrum mikilvægum breytingum. Gert er ráð fyrir því að samþykkt málsins náist á þessu ári og það muni hafa þau áhrif sem birtast í þessu frumvarpi.

Varðandi Vegagerðina þá er gert ráð fyrir því að auka þurfi framlög til framkvæmdaliðarins á næstu árum vegna þessara breytinga. Þessar breytingar eru gerðar vegna þess að það eru tafir á Bakka.

Mér finnst engin ástæða til að gera lítið úr þeim afkomubata sem er að verða hér. Tekjustofnarnir eru að styrkjast. Ég vek aftur athygli á því að við (Forseti hringir.) gerum ráð fyrir því að við 2. umr. verði hægt að taka nánari umræðu um tekjuhliðina, sérstaklega vegna þess að álagning á lögaðila gerðist (Forseti hringir.) það seint að henni var ekki komið inn í þetta frumvarp, en tekjuaukinn af því er fyrir utan það sem við erum að ræða hér.