144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

yfirskattanefnd o.fl.

363. mál
[17:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Nú mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um yfirskattanefnd, lögum um virðisaukaskatt, tollalögum og lögum um úrvinnslugjald. Nánar tiltekið er einkum um að ræða eftirtaldar breytingar:

1. Yfirskattanefnd tekur við verkefnum ríkistollanefndar og ríkistollanefnd er lögð niður.

2. Úrskurðarvald yfirskattanefndar er endurskilgreint vegna breytts hlutverks nefndarinnar og annarra breytinga á ýmsum lögum um skatta og gjöld.

3. Fellt er brott úr lögum um virðisaukaskatt það skilyrði að ágreining um skattskyldu og skattfjárhæð virðisaukaskatts megi einungis bera undir dómstóla ef yfirskattanefnd hefur áður úrskurðað um ágreininginn.

4. Skýrt er kveðið á um það í lögum að bera megi ákvarðanir um alla þætti skattamála undir dómstóla.

Nánar um fyrsta atriðið: Meginbreytingin sem lögð er til í frumvarpinu er sú að yfirskattanefnd taki við verkefnum ríkistollanefndar frá og með næstu áramótum og að ríkistollanefnd verði lögð niður frá sama tímamarki. Ríkistollanefnd hefur undanfarin ár úrskurðað í innan við 20 kærumálum á ári er varða tolla og aðflutningsgjöld. Ekki eru taldar forsendur til að viðhalda sérstakri úrskurðarnefnd þar sem kærur eru viðvarandi svo fáar. Yfirskattanefnd úrskurðar í svipuðum málum, þ.e. kærumálum um skatta og gjöld sem lögð eru á af ríkisskattstjóra. Starfsemi yfirskattanefndar er mun viðameiri og fastari í sessi en starfsemi ríkistollanefndar, enda hefur yfirskattanefnd afgreitt á bilinu 300–600 mál á ári undanfarin ár. Þá hefur yfirskattanefnd fasta starfsstöð og flestir nefndarmenn sinna starfinu sem aðalstarfi. Þykir því rökrétt að yfirskattanefnd taki við verkefnum ríkistollanefndar og að ein úrskurðarnefnd hafi með höndum að úrskurða í kærumálum á sviði skatta, tolla og annarra gjalda sem ákvörðuð eru af ríkisskattstjóra og tollstjóra, og sýslumönnum í tilviki erfðafjárskatts.

Um annað megintilefni og atriði frumvarpsins: Í frumvarpinu er lagt til að úrskurðarvald yfirskattanefndar verði endurskilgreint og samræmt, bæði vegna breytts hlutverks nefndarinnar og annarra breytinga á ýmsum lögum um skatta og gjöld sem orðið hafa undanfarin ár. Einnig eru önnur ákvæði laga um yfirskattanefnd lagfærð með tilliti til samræmingar og lagfæringar almennt.

Um þriðja megintilefni frumvarpsins er í frumvarpinu að finna tvö önnur atriði sem eru af nokkuð öðrum toga og tengjast ekki yfirtöku yfirskattanefndar á verkefnum ríkistollanefndar. Þau eru í fyrsta lagi að fellt er brott úr lögum um virðisaukaskatt það skilyrði að ágreining um skattskyldu og skattfjár virðisaukaskatts megi einungis bera undir dómstóla ef yfirskattanefnd hefur áður úrskurðað um ágreininginn. Þetta atriði hefur verið umdeilt um árabil, ekki síst þar sem endurákvörðun ríkisskattstjóra getur varðað tekjuskatt, virðisaukaskatt og fleiri gjöld samtímis. Ágreiningur um virðisaukaskatt þykir ekki hafa þá sérstöðu að rétt sé að viðhalda þessari sérreglu í lögum. Verði tillaga þessi að lögum verður unnt að bera ágreining um virðisaukaskatt beint undir dómstóla án aðkomu yfirskattanefndar.

Fjórða meginatriðið sem ég nefndi hér í upphafi er að lagt er til að gerð verði breyting á orðalagi 1. mgr. 15. gr. laga um yfirskattanefnd. Samkvæmt orðanna hljóðan á gildandi ákvæði verða úrskurðir yfirskattanefndar um skattfjárhæð ekki bornir undir dómstóla. Fræðimenn hafa um árabil dregið í efa að slík túlkun fái staðist enda samræmist hún ekki þeirri grundvallarreglu í íslenskum rétti að bera megi ákvarðanir stjórnvalda undir dómstóla. Eðlilegt þykir að þessu ákvæði verði breytt og að samkvæmt orðalagi þess megi bera ákvarðanir um alla þætti skattamála undir dómstóla.

Sá tilflutningur verkefna sem felst í frumvarpinu er talinn hafa óveruleg áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Miðað er við að fjárveiting muni fylgja tilfærslunni frá aðalskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytis sem hefur til þessa greitt meginhluta þess kostnaðar sem fallið hefur til vegna starfa ríkistollanefndar.

Að lokum vil ég hafa nokkur orð um aðdraganda máls þessa. Frumvarpið er samið samkvæmt tillögu starfshóps sem í áttu sæti fulltrúar allra stofnana skattkerfisins, þ.e. ráðuneytisins, tollstjóra, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra, yfirskattanefndar og ríkistollanefndar. Fjármála- og efnahagsráðherra skipaði þennan starfshóp í vor í beinu framhaldi af vinnu nefndar um stjórnsýslu skattamála sem ráðherra skipaði einnig og vann undir stjórn Ragnhildar Helgadóttur lagaprófessors. Þeirri nefnd var ætlað að vera fyrsti áfangi í athugun minni á stofnanakerfi skattamála þar sem starfsemi stofnana þess væri kortlögð með tilliti til réttaröryggis, skilvirkni og jafnræðis, auk samstarfs og tengsla stofnana skattkerfisins við ráðuneytið. Nefndin skilaði tillögum sínum til mín í desember 2013 í formi skýrslu sem birt er á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins og fannst mér sjálfsagt að geta þessa varðandi aðdraganda þess að málið er fram komið.

Að þessu sögðu mælist ég til þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.