144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

78. mál
[14:14]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir tillöguflutninginn og baráttu fyrir þessu máli. Í mínum huga snýst verkefnið fyrst og fremst um að styrkja rekstur Landhelgisgæslunnar og tryggja til framtíðar starfsemina og að staðsetning verkefna verði þar sem hagsmunir Gæslunnar eru fyrst og fremst í húfi. Í því sambandi finnst mér að höfuðstöðvar Gæslunnar eigi að sjálfsögðu að vera í höfuðborginni og þurfa í sjálfu sér ekkert að flytjast. Starfsemi flugrekstrar, varnarmála og loftrýmisgæslu verði á Keflavíkurflugvelli þar sem öll aðstaðan er. Nú þegar er töluverður rekstur Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli. Norðurslóðasamstarf í framtíðinni mun gera það kleift að staðsetja útibú á Norðausturlandi en vegna staðsetningar flugflotans í náinni framtíð er ljóst að íbúar, sjómenn og ferðafólk á Norður- og Austurlandi búa við ótryggara öryggi þjónustu en íbúar Vestur- og Suðurlands.

Virðulegi forseti. Fyrirhuguð stofnun alþjóðlegrar björgunarmiðstöðvar á Keflavíkurflugvelli með aðkomu Landhelgisgæslunnar, Isavia og Landsbjargar er tækifæri sem mun treysta stöðu og rekstur Landhelgisgæslunnar til bættrar þjónustu og meiri umsvifa. Ég tek hér undir orð hv. þm. Páls Vals Björnssonar um þá aðstöðu með tilheyrandi samstarfi við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, sem er auðvitað líka grundvöllurinn að alþjóðlegum flugvelli sem þar er nú þegar rekinn. Varðskipin og útgerð þeirra og staðsetningu þarf líka að skoða í ljósi þess sem er að gerast í kringum okkur við Grænland og í Norðurhöfum. Þá þarf að skoða tækifæri til hagræðingar, t.d. samstarf við Hafrannsóknastofnun og Fiskistofu, sem einfalda rekstur og skila bættri þjónustu fyrir alla. Skoða verður hvort hægt sé að ná fram hagræðingu í framtíðinni með því að setja allt ríkisflug á eina hendi, þ.e. sjúkraflug og flug Flugmálastjórnar vegna flugleiðsögu. Landhelgisgæslan er með eina til tvær þyrlur fullmannaðar hverju sinni til að sinna sjúkraflutningum, leit, björgun og eftirliti. Þá er Landhelgisgæslan með flugvél til taks stóran hluta af árinu til að sinna leit, björgun og löggæslu. Sá viðbúnaður þarf að vera til staðar þegar náttúruvá steðjar að eins og við Íslendingar þekkjum svo vel þessa dagana, en hann væri líka hægt að nýta betur sem stuðning við hið almenna sjúkraflug. Þessi flugvél hefur reyndar verið í leigu meira og minna allt árið.

Landhelgisgæslan sinnir í dag sjúkraflugi á Vestur- og Suðurlandi og öllum sjúkraflutningum annars staðar á landinu þegar Mýflug getur ekki sinnt því vegna anna eða veðurs auk þess sem Landhelgisgæslan sinnir sjúkraflugi til útlanda þegar þess er óskað. Þá eru loftför Landhelgisgæslunnar töluvert á ferðinni um landið og mögulegt að nýta þau til millispítalaflutninga samhliða öðrum verkefnum.

Það gefur augaleið að sameining flugstarfsemi ríkisins undir hatt Landhelgisgæslunnar mun leiða til hagræðingar og betri þjónustu. Í mínum huga verður að meta það blákalt hvort hagsmunum sjúklinga verði betur borgið með því að Landhelgisgæslan sjái um sjúkraflugið og tekjur af því renni til Gæslunnar. Landhelgisgæslan sinnir einnig lofthelgisgæslu á Keflavíkurflugvelli en þar er öflug stjórnstöð sem kostuð er af NATO.

Sameiginlegur skiparekstur Landhelgisgæslunnar og Hafró mun leiða til hagræðingar og hugsanlega betri nýtingar skipaflota stofnananna. Það mætti jafnvel hugsa sér sameiginlega mönnun að hluta og nýta varðskip í rannsóknarverkefni og skip Hafró til eftirlits til loðnuleitar sem verið hefur af skornum skammti auk annarra rannsókna sem geta með hagræðingu fjölgað úthaldsdögum skipanna. Það ætti að minnsta kosti að skoða þann möguleika gaumgæfilega, en ekki er hægt að fara nánar út í það í stuttu máli. Ég held að þarna sé tækifæri sem slíkar stofnanir þurfa að skoða í kjölinn. Landhelgisgæslan er nú þegar búin tækjum, þekkingu og upplýsingakerfum og vel þjálfuðu starfsfólki til að sinna fjölmörgum verkefnum sem nú eru á hendi annarra stofnana og tengjast með einum eða öðrum hætti starfsemi Gæslunnar. Má þar nefna viðhald siglingarvita sem má samtvinna rekstri varðskipa og rekstur vaktstöðva siglinga sem ætti að færa undir Landhelgisgæsluna með hagræðingu í huga. Þá gæti Landhelgisgæslan tekið yfir fiskveiðieftirlit Fiskistofu sem skapar aukna og betri nýtingu tækja og mannskaps.

Virðulegi forseti. Allar þessar hugmyndir eru settar fram til að skapa umræðu um hagræðingu og auka framleiðni stofnana sem vinna á sama sviði eða þar sem starfsemi þeirra skarast og getur bætt hver aðra upp. Ég held að sú umræða sem gert er ráð fyrir með tillögunni sé því af hinu góða og ég þakka framsögumanni enn og aftur fyrir að koma fram með þetta mál á hinu háa Alþingi.