144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[15:35]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég mun ekki vera jafn skemmtileg fyrir stjórnarþingmenn eins og hv. þm. Pétur Blöndal því ég er algerlega á móti þessum skuldaniðurfellingum eins og margoft hefur komið fram og við raunar öll í mínum þingflokki, Bjartri framtíð.

Mér finnst eiginlega viðeigandi að byrja þessa ræðu á að þakka Alþingi pent fyrir þennan reikning sem komandi kynslóðir munu bera vegna skuldaniðurfellingar fyrir suma fyrir tilteknar skuldir. Í umræðunni um skuldaniðurfellinguna, um forsendubrestinn, um verðbólguskotið, hefur ungt fólk og skattgreiðendur framtíðarinnar algerlega gleymst. Það er að verða fyrir forsendubresti vegna þeirra aðgerða sem gripið er til núna. 40 milljarðarnir úr ríkissjóði sem fara í þessari atrennu til útvalins hóps fara á meðan ekki í uppbyggingu innviða til að skapa sómasamleg lífsskilyrði. Ég hefði viljað sjá ríkið greiða niður skuldir, styrkja innviði fyrir þessa peninga sem koma úr sameiginlegum sjóðum okkar allra.

Forsendubrestur er orð sem við heyrum oft í tengslum við þessa umræðu. Mér hefur fundist bæði fyrir kosningar og nú í þinginu stjórnmálamenn hafa beinlínis tekið yfir skilgreiningarvaldið í íslenskunni hvað þetta orð varðar. Það er farið að þýða eitthvað allt annað en við höfum átt að venjast og ég verð að segja að ég er orðin svolítið rugluð hvað þetta varðar, ég verð að játa það. Í orðræðu framsóknar- og sjálfstæðismanna á þetta orð, forsendubrestur, einungis við um verðtryggð lán í fasteign á tilteknu tímabili. Og það er hér sem ég þarf aðeins hjálp með að skilja og ég vona að þingmenn stjórnarliðsins geti útskýrt það í sínum ræðum, t.d. hvernig þeir skilgreina hækkun húsnæðisverðs á sama tíma. Er það hluti af forsendubrestinum, kannski öfugur forsendubrestur? Og á hverjum lendir þessi öfugi forsendubrestur? Væntanlega á þeim sem hafa ekki enn keypt sér fasteign. Þarf þá ekki með sömu rökum að bæta þeim það upp sem hafa ekki enn komið sér inn á fasteignamarkaðinn, borga þeim bara hreinlega þá hækkun? Þeir sem eiga húsnæði fyrir fá jú hækkunina sjálfkrafa. Er það þá ekki sanngjarnt, ákveðin forsenda í þessum forsendubresti hjá hv. þingmönnum? Það væri gaman að heyra aðeins um þetta.

Svo velti ég líka mikið fyrir mér hvort það hafi ekki verið forsendubrestur að hafa átt annars konar verðtryggt lán, t.d. námslán. Hvernig finna menn það út að svo sé ekki? Kemur það lán ekkert inn í heimilisbókhaldið? Eða hverju eiga lántakendur lána eins og námslána að búast við í þessu leiðréttingarferli öllu? Mun sérfræðiþekking þeirra, sem skapast á grundvelli náms sem þeir taka námslán fyrir, stökkbreytast að verðmætum, líkt og gerst hefur með húsnæðisverðið? Verðum við ekki tengja verðtryggingu á námslánum við störfin sem lántakendurnir munu sinna í krafti sérfræðiþekkingar? Þurfum við ekki með sömu rökum að vaða inn í kjarasamninga fyrir hópinn „eignalausir námsmenn árin 2008–2009“? Eða hvernig á að leiðrétta þennan forsendubrest í praxís? Nei, herra forseti. Svona röksemdafærsla gengur auðvitað ekki upp. Hún gerir það ekki heldur í aðferðafræði ríkisstjórnarinnar, a.m.k. ekki ef fólk ætlar að bera fyrir sig rök sanngirni og réttlætis.

Herra forseti. Mín kynslóð og þær sem á eftir koma hafa sannarlega orðið fyrir forsendubresti en fá ekki einu sinni hann bættan heldur þurfa líka að taka á sig aukna skattbyrði fyrir hina sem fá milljónirnar. Þeir fá milljónir í dag en borga ekki upp lán sín, lán ríkissjóðs, sinnar kynslóðar. Við ætlum að láta börnin okkar gera það. Við eigum t.d. allflest verðtryggð námslán sem hafa margfaldast en einhverra hluta vegna hafa ríkisstjórnarflokkarnir komist að því að þau lán hafi ekki áhrif á heimilin. Er það heimili sem skuldar svona verðtryggð lán ekki gjaldgengt eða er hreinlega ekki heimili samkvæmt einhverjum nýjum skilgreiningum sem eru að myndast í allri þessari umræðu? Í ræðum stjórnarþingmanna þegar þeir mæla með þessu máli heyri ég ítrekað tölur um að ráðstöfunartekjur heimilanna með ákveðnum greini muni aukast um þetta og hitt. Í því samhengi finnst mér líka skilgreiningarvaldinu vera stolið um hábjartan dag eins og hefur verið gert með hugtakið forsendubrest, því hvað með öll hin heimilin? Telst heimili ekki vera heimili lengur út af því að þar liggur ekki verðtryggt fasteignalán frá einhverju tímabili? — Herra forseti. Ég held áfram að tala þó tíminn sé að líða hérna.

Hver gaf stjórnmálamönnum leyfi til að afbaka svona veruleikann og orðræðuna? Hvað kallast núna híbýli fólks sem leigir? Hvað kallast það fyrirkomulag?

Staðreyndin er sú að leigjendur, líkt og námsmenn með námslán, hafa líka tekið á sig verðbólguskotið og það hafa þeir gert með hækkun leigu. Staðreyndin er sú að önnur verðtryggð lán en fasteignalán, t.d. námslán, stökkbreyttust og hafa áhrif á heimilisbókhaldið. Staðreyndin er sú að komandi kynslóðir borga lán ríkissjóðs fyrir þá sem eldri eru og ætla ekki að borga niður lánin. Af hverju í ósköpunum finnst hv. þingmönnum stjórnarliðsins þetta vera í lagi? Hvar er ábyrgðartilfinningin og sómakenndin? Ég verð að segja að mér finnst þetta eins mikil eiginhagsmunasemi og hægt er að hugsa sér.

Ég hef farið í gegnum af hverju þessar forsendur fyrir forsendubrestinum ganga ekki upp. Ef uppleggið á að vera sanngirni þá verður sanngirni að eiga við um alla en ekki bara 50 eða 60% heimila á Íslandi. Það sem væri sanngjarnast mundi hjálpa öllum, skattgreiðendum nú og í framtíðinni; að borga niður skuldir ríkisins, styrkja innviði samfélagsins. Það mundi gagnast öllum. Það væri almenn aðgerð. Það væri sanngjarnt og réttlátt fyrir alla.