144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

innflutningur á hrefnukjöti.

[15:35]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Hér er sagt að við ættum hvorki að stunda veiðar né flytja inn kjöt frá Noregi úr stofnum sem eru mjög stórir og eru nýttir með sjálfbærum og ábyrgum hætti vegna þess að einhverjar aðrar tegundir hvala séu í útrýmingarhættu einhvers staðar annars staðar í heiminum. Ég get ekki fallist á þau rök. Það mundi hreint út sagt kollvarpa öllu því sem þjóðir við norðanvert Atlantshaf standa fyrir. Við, sérstaklega Íslendingar, nýtum þá stofna með sjálfbærum hætti. Kvótinn er upp á 154 dýr. Af hverju vorum við með 236 eins og hv. þingmaður nefndi? Það er vegna þess að kvótinn hefur flust til á milli ára, hefur ekki verið nýttur á árinu á undan. Það er heimilt að flytja hluta kvótans á milli.

Að sjálfsögðu eiga upprunamerkingar þessarar vöru að vera í lagi eins og á öllum öðrum. Það er ákaflega mikilvægt að neytendur, eins og t.d. þeir sem fara á veitingahús viti hvaðan matvaran kemur. Ég hef borðað humar á veitingahúsum (Forseti hringir.) og spurt hvort hann sé íslenskur. Það hefur þurft að fara fram í eldhús og athuga hvort svo sé. Að sjálfsögðu á að gilda um allar tegundir að menn geti fengið skilmerkileg svör þannig að þeir geti valið hvers þeir vilja neyta.