144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting og staða ríkissjóðs.

[16:04]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég geri ekki lítið úr þeirri afstöðu stjórnarflokkanna að þessi aðgerð komi heimilunum vel, hún sé með einhverjum hætti leiðrétting eða réttlæting vegna hrunsins, en ég deili þó ekki þeirri skoðun og vil benda á að ýmislegt hefur verið gert. Síðan er það að efnahagshrun verður ekki svo auðveldlega bætt og margir hópar í dag hafa ekki fengið neinar bætur og munu aldrei fá. Þess vegna eiga stjórnvöld á hverjum tíma að hafa það sem forgangsverkefni að koma í veg fyrir efnahagshrun.

Á einhverjum tímapunkti þarf að draga línu í sandinn og við sem viljum bæta hag heimilanna, það vilja held ég allir, teljum t.d. óráðlegt að hækka virðisaukaskatt á matvæli. Við mundum vilja fá stöðugri gjaldmiðil sem hefði í för með sér lægri vexti. Við viljum efla innviðina, menntakerfið, heilbrigðiskerfið, samgöngur, fjarskipti. Allt eru þetta málaflokkar sem skipta heimilin miklu máli. Mér finnst ekki sanngjarnt að vera sökuð um að spilla einhverri gleði sem haldið er fram að ríki nú um gervallt þjóðfélagið ef ég tel þessa ráðstöfun stjórnarflokkanna vera óskynsamlega meðferð á almannafé. Ég hef stundum heyrt það úti í samfélaginu að allir flokkar hefðu fallist á þessa framkvæmd ef þeim hefði boðist að taka þátt í ríkisstjórn. En ég get bara svarað fyrir minn flokk að Björt framtíð hefði aldrei farið í stjórn með flokki sem gerir þá kröfu að hátt í 100 milljarðar fari í niðurgreiðslu til hluta heimila á sama tíma og ríkissjóður er yfirskuldsettur og fjárþörf víða mikil.

Það var einn flokkur sem var til í að gera þetta kosningaloforð að sínu, það er Sjálfstæðisflokkurinn. Hann verður auðvitað bara að eiga það við sína kjósendur. Mér finnst afar holur hljómur í því þegar þingmenn flokksins tala um mikilvægi þess að greiða niður ríkisskuldir, um aga í ríkisfjármálum, um ábyrgð einstaklingsins, á sama tíma og þeir bera ábyrgð á því að 80 milljörðum af skattfé er dreift til heimila með verðtryggð lán. Ég hef líka áhyggjur af því að þessi aðgerð sé að einhverju leyti tilfærsla á fjármunum frá landsbyggð til höfuðborgar og hefði frekar viljað sjá peningana fara í samgöngur, fjarskipti, bætta heilbrigðisþjónustu, (Forseti hringir.) menningu, sóknaráætlun og uppbyggingu innviða í ferðaþjónustu.