144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting og staða ríkissjóðs.

[16:14]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þessa umræðu. Ég velti því samt fyrir mér að ef hún hefði átt sér stað fyrir hrun þá hefði stjórnarandstaðan væntanlega bent á háa skuldsetningu íslenskra heimila á meðan þáverandi meiri hluti hefði bent á góða stöðu ríkissjóðs. Við vitum hvernig fór.

Auðvitað mundum við öll vilja setja meira fjármagn í vegaframkvæmdir, heilbrigðiskerfið og menntakerfið. En ef við erum sammála þeirri fullyrðingu sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson setti fram í ræðu sinni, að ekki sé þörf á þessari leiðréttingu eins og er, þá værum við líka að segja að ekki eigi að koma til móts við streðandi stéttir Íslendinga sem búa við þau skilyrði sem þeim voru sköpuð án þess að lyft væri litla fingri. Nú vitna ég til orða hv. þingmanns 18. maí 2009.

Það gerðist ýmislegt hér á Íslandi. Seðlabankinn kom með fordæmalaust inngrip í íslenskt efnahagslíf og þeim sem áttu peninga í banka var bjargað. Við töluðum fyrir því á sínum tíma að verðbólguskotið sem varð í kjölfarið væri óréttlátt. Við töluðum ekki bara um verðtryggð húsnæðislán, við töluðum líka um gengistryggð húsnæðislán. Dómstólar björguðu því en þáverandi ríkisstjórn talaði gegn því að farið yrði í þær aðgerðir.

Ég velti því fyrir mér, vegna þess að mér finnst skrýtið að stjórnarandstaðan sjái ekki fleiri jákvæða fleti á þessu máli en raun ber vitni: Hefði hún verið á móti því ef við hefðum farið í að leiðrétta gengistryggðu lánin, eins og dómstólar gerðu, vegna þess að á þeim tíma var líka fullyrt að það mundi hafa mjög slæm áhrif á íslenskt efnahagslíf?

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að sú niðurstaða hafði þvert á móti jákvæð áhrif og (Forseti hringir.) sé kannski hluti af því að við Íslendingar erum svo sannarlega á réttri leið með efnahagslíf okkar.