144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Í vikunni fengum við nefndarmenn í velferðarnefnd kynningu á drögum að frumvarpi til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, sem svo er kallað. Fyrirhugað er að leggja frumvarpið fram í byrjun næsta árs.

Staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni er villandi hugtak. Það hljómar eins og ofboðslega göfugt mál en siðferðilegu álitaefnin sem liggja að baki, og praktíkin sjálf sem nú er komin fram, sýna svo að ekki verður um villst að velgjörðin er ansi brothætt.

Við erum komin á þann stað með væntanlegu frumvarpi að líkt og maður gefur af góðmennsku úr sér nýra eða eitthvert annað líffæri megi að sama skapi gera ráð fyrir að konur gefi afnot af legi sínu og líkama öllum fyrir aðra, bara út af því að svo heppilega vill til að tæknin leyfir það.

Að þessu er sem sagt verið að vinna og það er eins og ekkert þurfi að ræða það að líffæri er ekki það sama og barn. Eða finnst fólki það? Á maður sama rétt á hvoru tveggja, er enginn stigsmunur á?

Það kom fram á fundi velferðarnefndar að við frumvarpsvinnuna hefði einfaldlega verið sneitt fram hjá siðferðilegum vanköntum og ég hef mikið velt því fyrir mér hvernig hægt sé að fjalla um þetta mál án þess að taka tillit til siðferðislegra álitaefna.

Grunnforsendan, sem gengið er út frá hér, er að fólk sem vill verða foreldrar vanti börn, ekki þeirri forsendu að börn séu umkomulaus og vanti foreldra til að annast sig en sú forsenda hefur verið ástæðan fyrir ættleiðingum.

Við þurfum að hafa það alveg á hreinu, í allri umræðu um staðgöngumæðrun, að við erum að ræða um rétt fullorðinna, við erum að ræða þetta út frá kröfum þeirra en ekki út frá kröfum eða þörfum barna.