144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Lífið er fullt af breytingum. Samt er í mannfólkið innbyggð tregða gegn þeim. Þær neyða út fyrir þægindaramma og til að horft sé á hlutina frá öðru sjónarhorni. Einar íhaldssömustu stofnanir samfélags er varða vinnulag eru skólastofnanir. Frá upphafi hefur ákveðið vinnulag tíðkast sem fylgir alþjóðasamfélaginu enn í dag í stórum dráttum.

Auðvitað hafa orðið breytingar með breyttu samfélagi en þó minni en við mætti búast. Skoskur fræðimaður lýsti því eitt sinn svo í mín eyru: Skólarnir eru eins og seglskip en samfélagið er eins og vélskip.

Framhaldsskólar á Íslandi mennta ungt fólk til stúdentsprófs en þeir mennta líka til annarra prófgráða sem eru í flestum tilfellum í verk- og tækninámi. Áherslan hefur löngum verið mest á bóknámið eða stúdentsprófið sem hefur verið skilgreint sem fjögurra ára nám. Oft hefur komið til tals að stytta stúdentsnám í þrjú ár og frá árinu 2008 hefur markvisst verið unnið að því. Sumir framhaldsskólar eru þegar komnir vel á veg og hafa gert breytingar á náms- og kennsluháttum sem nauðsynlegt er að gera.

Við þessa styttingu mun nemendum í framhaldsskólum væntanlega fækka um einn árgang. Núverandi menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson hefur mikinn metnað fyrir hönd framhaldsskólastigsins. Hann sér fyrir sér að það fjármagn sem út af stendur við þessa breytingu haldist inni í skólunum, gefi okkur tækifæri til að auka gæði menntunar og að skólarnir geti komið betur til móts við þarfir einstaklingsins.

Það er hins vegar mjög mikilvægt að meðan þessi umbreyting er að ganga yfir sé gætt vel að minnstu skólunum og fjármagn til þeirra ekki skorið niður, (Forseti hringir.) að gólfið verði ekki brotið fyrir framan þá áður en þeir ganga inn í nýja rýmið.