144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Í tvo áratugi hef ég barist fyrir því að menn taki upp starfsgetumat í staðinn fyrir örorkumat, líti frekar á getu fólks til að starfa en vangetu. Ég hef starfað í þremur nefndum sem hafa barist fyrir þessu og er formaður þeirrar síðustu sem nú starfar. Öll sú nefnd er sammála um að nauðsyn sé að taka upp starfsgetumat.

Á dögunum birtist einstæð auglýsing félagasamtaka, Öryrkjabandalagsins, sem hafði það markmið að sverta ákveðna stjórnmálamenn, þ.e. mig og hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Þau nota til þess tugi milljóna. Auglýsingin um mig var í engu málefnaleg heldur snerist gegn persónu minni. Það sæmir ekki Öryrkjabandalaginu að nota sér erfiðleika fólks í veikindum, klippa í sundur setningar og nota myndskeið án leyfis til að klekkja á fólki, hafa af því æruna og vega að trúverðugleika þess.

Mér er vissulega misboðið vegna þessarar auglýsingar, þessa nýmælis í íslensku stjórnmálalífi. Ég get ekki skilið hvaða hvatir liggja að baki því að Öryrkjabandalagið eyði tugum milljóna í auglýsingu sem fjallar ómálefnalega og á einstæðan hátt og neikvæðan um mína persónu.

Ég kvarta ekki undan málefnalegri gagnrýni en ekkert er málefnalegt við þessa auglýsingu. Ég spyr hv. þingmenn: Eru þetta vinnubrögð sem við viljum sjá, að félagasamtök noti milljónir til að sverta þingmenn?

Nú er ég formaður í þessari nefnd sem starfað hefur ötullega í eitt ár að málefnum sem varða öryrkja og aldraða mikið. Öryrkjabandalagið á tvo fulltrúa í þeirri nefnd. Ég mun reyna að láta þetta atvik ekki hafa áhrif á störf mín og leita áfram að lausnum sem gagnast munu öryrkjum og öldruðum en óneitanlega verður það eitthvað erfiðara.