144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Mig langar til að fara yfir nokkrar staðreyndir varðandi aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Framlög til almannatrygginga hafa verið aukin með fjárlögum 2014. Skerðingar á greiðslum til öryrkja og eldri borgara sem teknar voru upp árið 2009 voru afnumdar og framlög til almannatrygginga aukin um 9 milljarða, eða 11%. Við höfum því aldrei sett jafn mikið fjármagn til almannatrygginga og á árinu 2014.

Í fjárlagafrumvarpinu 2015 er eftirfarandi lagt til vegna öryrkja:

Gert er ráð fyrir að greiðslur vegna almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar hækki um 3,5% um næstu áramót. Frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar verður framlengt og verður áfram 109.600 kr. á mánuði. Framlag til að hækka tekjuviðmið uppbótar á lífeyri verður aukið um 72 millj. kr. Reikna þarf út hve mikið er hægt að hækka viðmiðið fyrir þessa fjárhæð, en vænta má aukins fjölda einstaklinga sem eiga rétt á uppbótinni og ekki fá greiðslur í dag.

Um 500 millj. kr. útgjaldaaukning verður vegna endurhæfingarlífeyris á næsta ári vegna mikillar fjölgunar þeirra sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri.

Aukin áhersla verður lögð á vinnusamninga við öryrkja og lagt út frá starfsgetumati, en gert er ráð fyrir að það færist undir lög um vinnumarkaðsaðgerðir um áramótin og þar með til Vinnumálastofnunar.

Í frumvarpi til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar er lagt til að farin verði sú leið sem starfshópur um víxlverkanir lagði til. Hún felur í sér samanburð á þeim fjárhæðum sem hver og einn neytir, annars vegar miðað við frítekjumörk og skerðingarhlutföll ársins 2013, þ.e. samkvæmt þeim sérreglum sem leiða af framkvæmd lagaákvæðisins ásamt 3,6% hækkun á fjárhæðum lífeyrisgreiðslna sem urðu um síðustu áramót og hins vegar miðað við almennar reglur ársins 2014.

Þessar leiðir í bland við aðrar munu því hlífa tekjulágum lífeyrisþegum (Forseti hringir.) við afleiðingum þess að gildistími samkomulagsins og laganna er útrunninn.