144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[16:05]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna auðvitað þeirri jákvæðu afleiðingu af þessari breytingu og ég treysti því að rétt sé farið með af hálfu hæstv. ráðherra að aðgerðinni sé ætlað að treysta í sessi fjárhagslegt sjálfstæði Seðlabankans. Við munum auðvitað fara vandlega yfir það í nefndinni og ganga úr skugga um það, enda er það hlutverk þingnefndarinnar.

Það er líka alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að hann tók við mjög öfundsverðu búi. Það var búið að ná jöfnuði í ríkisfjármálum þegar hann tók við, sá jöfnuður náðist á seinni hluta árs 2013. Það var búið að ganga í gegnum alla erfiðleikana við að koma skattstofnum í það form að þeir gæfu nægjanlega af sér til að standa undir reglulegum rekstri ríkisins. Það er því létt verk og þægilegt að vera fjármálaráðherra við þær aðstæður þegar efnahagslífið hefur tekið við sér og skattstofnar gefa í samræmi við þær þarfir sem við höfum.

Það er vissulega rétt hjá hæstv. ráðherra að mikilvægasta verkefni næstu ára er að gæta þess að þessu fé sé ráðstafað með eins góðum og skynsamlegum hætti og mögulegt er. Þar greinir okkur að ýmsu leyti á, en ég vona að hann sjái mikilvægi þess að veita fé í ríkari mæli en hann hefur hingað til gert í uppbyggingu í velferðarþjónustu og treysta stoðir almannaþjónustu og þá sérstaklega að hún sé veitt án tillits til efnahags.