144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[16:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu munum við afla okkur upplýsinga og ugglaust koma ágætar skýringar fram á ýmsu í þessum efnum, skárra væri það nú þegar menn hafa legið yfir þessu í heilt ár í viðbót eða svo til. En engu að síður er þetta svona, og það er staðfest hér af hæstv. ráðherra, að þessar tölur eru fengnar á grundvelli áætlunar. Sú áætlun hlýtur að þýða að hagnaður Seðlabankans á þessu ári verði það mikill eða áætlað sé að hann verði það mikill að ekki þurfi að draga nema 5 milljarða frá áður áætlaðri 26 milljarða tekjufærslu án þess að menn fari niður fyrir bókfært eigið verðmæti eigin fjárins í Seðlabankanum eins og það stendur í reikningum ríkisins. Þannig hlýtur skýringin að vera.

Nú er stundum sagt að seðlabankar geti skammtað sér nokkuð þægilega afkomu með ýmsum aðferðum. Ég efast svo sem ekki um það að Seðlabankinn getur sjálfsagt jústerað þetta þannig eða gert upp þannig að þetta verði nærri lagi, en mér finnst það samt standa eftir sem áleitin spurning: Af hverju byrja menn á þessum enda? Af hverju setja menn ekki fyrst hinar nýju reglur í lög, láta Seðlabankann finna út hin hæfilegu eiginfjármarkmið, skoða hvernig það rímar við eigið féð eins og það stendur og aftur hvort hægt sé að færa það niður og þá geti ríkið tekjufært eitthvað hjá sér?

Þá vil ég líka spyrja hæstv. ráðherra á móti um 52 milljarðana sem ríkið ætlar að skuldbinda sig til að leggja inn í bankann ef hann þarf á því að halda. Það stendur að það skuli gera á grundvelli heimildar í fjárlögum hvers árs. Er þá meiningin að færa þá heimild inn í fjárlög eða fjárlagafrumvarpið sem nú er til umfjöllunar á þingi þannig að í fjárlögum ársins 2015 standi heimild til að leggja Seðlabankanum til allt að 52 milljarða ef hann kallar eftir því? Hvernig verður sú heimild sýnd?