144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

almannatryggingar.

35. mál
[18:33]
Horfa

Flm. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir ræðuna. Ég veit að hann er áhugamaður um almannatryggingakerfið og betur að sér um það en flestir þingmenn. Það er rétt sem þingmaðurinn bendir á að almannatryggingakerfið er ákaflega flókið og unnið er að breytingum á því sem eru meðal annars til einföldunar. En ég hef nú lært það í aðkomu minni að lögum um almannatryggingar að boðaðar breytingar á þeim eru ekki alltaf jafn mikið á næsta leiti og látið er í veðri vaka. Ég tel því mikilvægt að farið verði gaumgæfilega yfir þetta mál. Það eru ákveðnir hópar sem verða fyrir tekjuskerðingu við það að fara á ellilífeyri og sem mega mjög illa við því. Frumvarpinu er ætlað að mæta því.

Það er hárrétt sem hv. þm. Pétur Blöndal nefndi að almenna reglan er sú að fólk lækkar í launum við það að fara á ellilífeyri og bætir sér það upp til að mynda með séreignarsparnaði. En hér erum við að fjalla um hópa sem oft og tíðum hafa ekki haft tök á séreignarsparnaði og hafa verið langt undir meðaltekjum öll sín ár. Þó að ekki sé hægt að alhæfa um fjárhag og stöðu öryrkja vitum við að sá hópur sem helst er í hættu á að verða fátækur, stærsti áhættuhópurinn hvað varðar fátækt, eru öryrkjar sem og langtímaatvinnulausir og einstæðir foreldrar. Frumvarpinu er ætlað að draga úr þeirri áhættu.