144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

rekstrarvandi Landspítalans.

[11:02]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hélt að það væri mjög skýrt sem ég sagði. Það er ekki búið að afgreiða fjárlög fyrir árið 2015. Þegar það liggur fyrir sjáum við fyrst frammi fyrir hvaða verkefnum við stöndum varðandi rekstur Landspítalans. Það er einfalt og skýrt. Ef til þess kemur að við sjáum ekki fram á auknar fjárveitingar til Landspítalans í meðförum fjárlagafrumvarpsins er alveg ljóst að við þurfum að gera einhverjar breytingar á starfsemi hans. Er eitthvað óljóst í þessum orðum mínum? Ég tel að svo sé ekki. Ég vænti þess, eins og ég gaf til kynna, að gerðar verði breytingar á fjárlagafrumvarpinu sem ríkisstjórnin lagði fram í meðförum Alþingis. Það er fyrst þegar fjárlög næsta árs liggja fyrir sem við getum rætt af einhverju efnisinnihaldi um þær væntu breytingar sem menn gera hér að umtalsefni.