144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

dagur helgaður fræðslu um mannréttindi barna.

397. mál
[14:56]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þetta með heitið á þessum lið, andsvar, ég er ekki komin hingað upp til þess að mótmæla hv. þingmanni í einu eða neinu heldur tek ég undir og lýsi mig sammála því og fylgjandi því að við felum hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að beita sér fyrir því að 20. nóvember verði dagur sem verði sérstaklega helgaður fræðslu um mannréttindi barna í skólum landsins. Það liggur við, ef ég ætti að vera leiðinleg, að ég kæmi með viðaukatillögu sem segði: og mundi líka fræða foreldra á sama tíma.

Spurningunni sem ég ætlaði að leggja fyrir hv. þingmann svaraði hann eiginlega í lokin. Ég ætlaði einmitt að ítreka hvort hv. þingmaður teldi ekki að við þyrftum ekki bara að hugsa um hag barna á þessum eina degi heldur að væri hlutverk okkar á Alþingi að hafa hag barna í huga í öllu sem við ákveðum. Hann svaraði því, en það væri gaman að fá aðeins nánari útlistanir á því frá hv. þingmanni sem hefur fengið þann flotta titil að vera talsmaður barna á Alþingi — til hamingju með hann, ég skil vel að þú berir hann með stolti. Verðum við ekki alltaf, eins og núna þegar við erum að skuldsetja ríkissjóð langt fram í framtíðina, að huga að þessu? Hvað verður um hag þeirra sem eru á leikskólaaldri núna? Þau munu líklega þurfa að bera ábyrgð á ýmsu klúðri okkar núna 20. nóvember, á þessum degi þegar við ætlum vonandi að byrja fræðslu um réttindi barna.