144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[12:04]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nú eru línur að skýrast eftir því sem umræðunni vindur fram hér. Mér er sagt að málið hafi verið kynnt munnlega utan dagskrár á fundi hv. atvinnuveganefndar í morgun. Auðvitað hlýtur maður að gera athugasemdir við slík vinnubrögð og þar af leiðandi tek ég undir þá kröfu sem hv. þingflokksformenn hafa lagt fram, um fund með forseta, til þess að hægt sé að fara yfir hvernig málið er unnið. Það er líka spurning hvort hægt sé að tala hér um tæka breytingartillögu þegar í raun er verið að taka tillögu verkefnisstjórnarinnar um einn virkjunarkost og bæta við hana sjö öðrum virkjunarkostum sem ekki eru hluti af tillögu verkefnisstjórnar. Er þetta ekki bara glænýtt mál sem rétt er að ráðherra málaflokksins standi fyrir eða þá nefndin, hluti nefndarinnar? Að sjálfsögðu geta þingmenn fært fram mál, en þetta er ekki breyting á þeirri tillögu sem verið hefur í ferli og ekkert í umsögnum um málið gefur tilefni til þeirrar tillögu sem hér hefur verið kynnt með þessum furðulega óformlega hætti.

Ég tek því undir þá kröfu sem hér hefur verið lögð fram, það er fullkomlega eðlilegt að hæstv. forseti fundi með hv. þingflokksformönnum og fari yfir það nákvæmlega hvernig halda á áfram í þessu máli.