144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[12:12]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að forseti ætlar að boða til fundar með þingflokksformönnum til að ræða þetta mál. En ég vil ítreka að þetta er mál af þeirri stærðargráðu að það verður ekki muldrað um það utan dagskrár og út um annað munnvikið á fundi atvinnuveganefndar og gerðar á því stórkostlegar breytingar á þann hátt sem raun ber vitni hér, það er algerlega útilokað. Og allir sem hafa verið lengur en tvo vetur á þingi vita að síðari umræða um þingsályktunartillögu er hvorki fugl né fiskur. Það mun ekki gefast nægt tóm til að ræða svo gríðarstórt mál hér í þinginu. Það kallar á miklu meira en það.

Auðvitað er mjög óheiðarlegt að daginn eftir að umhverfisnefnd lýkur við umsögn sína um að færa Hvammsvirkjun, eina af þeim virkjunum sem um ræðir, í nýtingarflokk skuli þetta gerast. Auðvitað er það mjög óeðlilegt. Það blasir við hverjum sem er að þessi vinnubrögð eru ekki slétt og felld, langt í frá, og það þarf að fara yfir í þinginu ef menn vilja ekki sitja uppi með mjög afdrifaríkar afleiðingar þess fyrir allt starf í þinginu.