144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[12:23]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Sú ákvörðun meiri hluta atvinnuveganefndar um að setja alla þessa átta kosti inn í þingsályktunartillöguna hafa verið viðraðir í atvinnuveganefnd áður. Ég segi fyrir mína parta að ég trúði ekki að þetta yrði að veruleika, en það kom í ljós að verið var að vinna lögfræðilegt álit innan atvinnuvegaráðuneytisins á því hvort þetta félli innan löggjafar um rammaáætlun og við biðum eftir því. Ég tók ákvörðun um að vera ekki að ræða um þessi mál hér á þingi fyrr en minnisblað frá lögfræðingi atvinnuvegaráðuneytisins lægi fyrir. En minnisblaðið er ekki enn þá komið í hendur okkar í atvinnuveganefnd eins og lofað var á fundi í morgun. Það er með ólíkindum að þessi ákvörðun meiri hluta atvinnuveganefndar sé kynnt án þess að minnisblaðinu, lögfræðiálitinu, hafi verið dreift. Ég vísa því til hæstv. forseta (Forseti hringir.) að kalla nú eftir (Forseti hringir.) minnisblaðinu úr ráðuneytinu sem styður (Forseti hringir.) þessa afdrifaríku ákvörðun hv. formanns atvinnuveganefndar.