144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:01]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég styð þessa tillögu. Ég hef lagt á það áherslu að hækka framlag á hvern nemanda. Þannig var komið málum í framhaldsskólakerfinu að veturinn 2011–2012 var framlagið á hvern nemanda komið niður í 890 þús. kr. á verðgildi ársins 2014, sem var langt fyrir neðan það sem hægt var að reka framhaldsskólakerfið á. Má til samanburðar setja að nemandi í grunnskóla kostar 1,5 millj. kr.

Okkur hefur nú tekist að hækka framlagið á hvern nemanda upp í 1.090 þús. kr. Þegar við viljum síðan taka ákvarðanir eins og þá að setja gólf fyrir minnstu skólana er mjög mikilvægt að draga það þá ekki frá framlaginu á hvern nemanda heldur bæta við. Það er nauðsynlegt að við höfum það í huga að rétt eins og í heilbrigðisþjónustunni, þar sem við getum ekki framkvæmt þrjár hjartaskurðaðgerðir fyrir verð tveggja eða þá í vegagerð malbikað 100 km fyrir verð 50, þá gildir nákvæmlega það sama í menntakerfinu. Það er nauðsynlegt að horfa á þá fjármuni sem við setjum til hvers nemanda. Við erum að hækka það fjármagn og ef við viljum bæta við aðgerð eins og þessari þá á það að koma sem viðbótarfjármagn (Forseti hringir.) til framhaldsskólakerfisins.