144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:22]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Við lifum svolítið furðulega tíma. Hér er komin sem breytingartillaga frá meiri hluta fjárlaganefndar allnokkur summa, 16 milljarðar, og þetta eru aðallega arðgreiðslurnar úr Landsbankanum. Þetta er peningurinn sem við í Bjartri framtíð vildum nýta til þess að fjárfesta í fjölbreyttu atvinnulífi, í nýsköpun, í uppbyggingu skapandi greina, í uppbyggingu græns iðnaðar, fjárfesta í menntakerfinu og nauðsynlegum innviðum, peningar sem við vildum að hluta til nota til að greiða niður opinberar skuldir.

Nú sýnist mér að talsmenn aga í ríkisfjármálum, gæslumenn vandaðra vinnubragða í fjáraukalögum, eigi í engum vandræðum með að láta þessa 16 milljarða renna bara nánast umyrðalaust í að greiða niður einkaskuldir fólks, algjörlega burt séð frá því (Forseti hringir.) hvað fólk á eða hvað fólk hefur í tekjur; (Gripið fram í.) í fordæmalausa efnahagsaðgerð og umdeilda, eitthvað sem ég mundi kalla eitthvert mesta bruðl Íslandssögunnar. (Gripið fram í.)