144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins á spurningum um verðtryggingu, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[15:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur um álit EFTA-dómstólsins á spurningum sem tengjast verðtryggingu í lánaskilmálum íslenskra lána þá fannst mér sjálfsagt að óska eftir því við þingið að fá að flytja hér stutta munnlega skýrslu.

Á mánudaginn var þann 24. nóvember gaf EFTA-dómstóllinn út ráðgefandi álit í máli E27/13, Sævar Jón Gunnarsson gegn Landsbankanum hf., þar sem fjallað er um ýmis atriði er tengjast verðtryggingu lánsfjár. Álitið er annað tveggja ráðgefandi álita sem tengjast verðtryggingu lánsfjár, en í lok ágúst síðastliðinn fjallaði EFTA-dómstóllinn um fimm af þeim sex álitaefnum sem til úrlausnar voru í máli Sævars Jóns, samanber mál E25/13, Gunnar V. Engilbertsson gegn Íslandsbanka.

Hvað varðar hin samhljóða álitaefni var talið að sömu sjónarmið ættu við og í hinu fyrra máli og var tekið fram að almennt legði tilskipun 93/13 um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum ekki bann við skilmálum um verðtryggingu í neytendalánum. Þetta er eitt af atriðunum sem rétt er að hafa sérstaklega í huga og halda til haga í umræðu um þessi mál almennt.

Hins vegar var jafnframt í ráðgefandi álitinu nú fjallað um viðbótaratriði, þ.e. hvort heimilt væri samkvæmt tilskipun nr. 87/102, um neytendalán, að miða við 0% verðbólgu í útreikningi á heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar ef þekkt verðbólgustig er ekki 0% svo sem framkvæmdin var hér á landi í tíð eldri laga um neytendalán nr. 121/1994. Samkvæmt hinu ráðgefandi áliti er sú tilhögun að miða við 0% verðbólgu ósamþýðanleg tilskipuninni.

Í álitinu segir enn fremur um þýðingu þess að landsrétti, með leyfi forseta:

„Það er landsdómsins að meta, að teknu tilliti til allra atvika málsins, hvaða áhrif röng upplýsingagjöf af þessu tagi hefur og hvaða úrræðum er hægt að beita af því tilefni að því gefnu að þeirri vernd sem neytendalánatilskipunin veitir samkvæmt túlkun dómstólsins sé ekki stefnt í hættu.“

Við slíkt mat segir síðan að landsdómstóllinn þurfi að hafa hliðsjón af því hvort viðkomandi neytandi geti talist almennur neytandi sem sé ágætlega upplýstur, athugull og forsjáll.

Það er því viðbúið að á ýmis atriði muni reyna fyrir íslenskum dómstólum við mat á því hvaða áhrif ófullnægjandi upplýsingagjöf að þessu leyti kunni að hafa. Þar kann meðal annars að skipta máli hversu strangar kröfur íslenskir dómstólar telja að réttu lagi hægt að gera til neytenda, þar á meðal með hliðsjón af því hvað hinn almenni neytandi vissi eða mátti vita. Í þessu samhengi kann jafnframt að reyna á hvort umrædd framkvæmd teljist til óréttmætra viðskiptahátta og þá hvort og hvaða þýðingu slíkt geti haft með tilliti til skuldbindingargildis einstakra lána, en það mat virðist einnig atviksbundið samkvæmt hinu ráðgefandi áliti.

Höldum því ávallt til haga í þessari umræðu að hér er um ráðgefandi álit að ræða, engan dóm, ekkert sem skuldbindur íslenska dómstóla til að komast að niðurstöðu um eitt umfram annað þó við höfum þá framkvæmd fyrir framan okkur að almennt hafi hliðsjón verið höfð af ráðgefandi áliti frá dómstólunum. Það nær þó ekki lengra en þetta. Það gefur þá leiðsögn að 0% sé ósamþýðanlegt tilskipuninni en það verði að vera mat íslenskra dómstóla hvaða áhrif það kunni að hafa.

Auk þess sem ég hef hér rakið má búast við því að látið verði reyna á það hvort og þá hvaða þýðingu það kunni að hafa að tilskipunin sem slík tekur ekki til fasteignaveðlána ólíkt lögum um neytendalán nr. 121/1994, en hið ráðgefandi álit tekur ekki á því atriði sérstaklega. Eins er viðbúið að íslensk fjármálafyrirtæki beri því við, samkvæmt 12. gr. þágildandi laga um neytendalán, að ráðgert hafi verið að miða bæri við 0% hvað sem líður efni tilskipunarinnar.

Virðulegur forseti. Íslensk stjórnvöld hafa undanfarið fylgst vandlega með þeim dómsmálum sem rekin hafa verið og varða lögmæti verðtryggingar og áhrif þess ef verðtrygging verður dæmd óskuldbindandi fyrir lántaka. Á fundum nefndar um fjármálastöðugleika og nú síðar fjármálastöðugleikaráðs hafa verið kynntar sviðsmyndir sem Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið hafa unnið. Ekki er ljóst hvenær meginlínur íslenskra dómstóla muni liggja fyrir hvað framangreind atriði snertir og önnur möguleg álitaefni, en fyrstu dómar gætu fallið á fyrri hluta næsta árs.

Herra forseti. Í hinu ráðgefandi áliti er komist að þeirri niðurstöðu að umrædd tilhögun, sem viðgekkst í tíð eldri laga um neytendalán, hafi ekki verið í samræmi við neytendalánatilskipunina sem lögin fólu í sér innleiðingu á. Þegar frumvarp til nýrra laga um neytendalán, nr. 33/2013, var lagt fram í tíð síðustu ríkisstjórnar var miðað við að við útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar bæri að miða við að verðlag héldist óbreytt og þaðan kemur 0% viðmiðið. Þessu var breytt við þinglega meðferð, samanber 3. mgr. 21. gr. núgildandi laga. Þar kemur nú fram að ef lánssamningur heimilar verðtryggingu skuli útreikningur árlegrar hlutfallstölu kostnaðar miðast við ársverðbólgu samkvæmt 12 mánaða breytingu vísitölu neysluverðs og þá forsendu að ársverðbólga verði óbreytt til loka lánstímans.

Allt eru þetta og geta verið mjög ófullkomnar aðferðir og er engin ein þeirra betri annarri í sjálfu sér. Hér kann eitt að gilda ef menn vilja bera verðtryggðu lánin á lántökudegi saman við óverðtryggð lán þar sem segja má að framtíðarverðbólga hafi verið tekin með inn í vaxtaprósentuna þá kann þetta að blasa við með einum hætti, en ef menn eru eingöngu að skoða lánið út frá stöðu lántakans á lántökudegi og um er að ræða verðtryggt lán þá kann það að gefa betri mynd fyrir lántakann að skoða allar tölur á eins konar núvirði peninganna. Þetta er ekki einfalt mál.

Þingið hefur að minnsta kosti tekið af skarið með þeirri breytingu sem ég rakti að til framtíðar sé eðlilegt að miða við ársverðbólgu samkvæmt 12 mánaða breytingu. Við sjáum hvernig verðbólgan hefur verið að breytast að undanförnu. Nú er hún lág, fyrir skömmu síðan var hún talsvert hærri, en samt á að nota tölu sem getur verið þetta breytileg og festa hana yfir allan lánstímann sem í sumum tilvikum getur verið 40 ár. Hvað segir það lántakanum? Þetta eru spurningar sem menn hljóta að velta fyrir sér í þessum málum.

Eins og ráða má af þeim breytingum sem gerðar voru á frumvarpinu sem ég hef rakið átti sú tilhögun að miða við útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar við 0%. Hún átti sér stoð í orðalagi 12. gr. þágildandi laga þar sem talað var um óbreytt verðlag. Undir rekstri málsins var talið fullt tilefni til að koma á framfæri við dómstólinn þeim sjónarmiðum sem að líkum lágu umræddu lagaákvæði til grundvallar og sem í grunninn felast í því að þannig sé neytandinn í betri aðstöðu til að leggja mat sitt á raunvirði skuldbindingar sinnar. Þetta fannst mér rétt að kæmi hér fram.

Það er mikilvægt í lokin að árétta að umræddur gerningur er í grunninn einkaréttarlegs eðlis. Það er ákveðin óvissa uppi sem stafar af því hvort og að hvaða marki úrlausnir íslenskra dómstóla geta fallið neytendum í vil og þá hvaða áhrif það kann að hafa á fjármálakerfið og eftir atvikum hagsmuni ríkissjóðs. Með þessu er fylgst og hefur verið fylgst í langan tíma eins og ég hef rakið áður.

Virðulegi forseti. Niðurstaðan sem við höfum gefur að mínu áliti ekki tilefni til að vera með miklar yfirlýsingar um fullnaðarsigur neytenda eða á hinn veginn, að verðtryggingin hafi staðist skoðun. Hér erum við eingöngu með ráðgefandi álit sem fer til frekari meðhöndlunar hjá íslenskum dómstólum. Það er ábyrgt og varlegt að bíða bara og sjá hver endalok málsins verða hjá íslenskum dómstólum sem eiga og munu ráða þessum álitaefnum til lykta. Það er rétt að gangast við því að uppi er ákveðin óvissa og þá óvissu þarf að leiða til lykta fyrir íslenskum dómstólum. Fyrr en sú niðurstaða liggur fyrir er ekki að svo stöddu hægt að segja nákvæmlega til um hver áhrifin verða á hagsmuni neytenda, hagsmuni ríkissjóðs og stöðu fjármálamarkaðanna.