144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins á spurningum um verðtryggingu, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[15:31]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hæstv. fjármálaráðherra skýrsluna sem hér hefur verið flutt. Það er mikilvægt að fá tækifæri til að fjalla hér um þennan dóm, þýðingu hans og hvaða sjónarmið þar koma til álita. Það má segja að dómurinn komi ekki alfarið á óvart enda breytti Alþingi Íslendinga árið 2011 gildandi lögum á þann veg að fjármálafyrirtækjum var bannað að miða við 0% verðbólgu í greiðsluáætlun. Í því fólst auðvitað ákveðin viðurkenning á því að það orkaði tvímælis að miða við 0% verðbólgu í þessum greiðsluáætlunum fram að þeim tíma.

Á undanförnum missirum hefur staðið yfir málflutningur í hinum ýmsu málum sem varða verðtrygginguna á erlendum vettvangi. Ég verð nú að segja það hér að það hefur verið nokkuð sérkennilegt að fylgjast með ríkisstjórn sem þykist heima fyrir vilja afnema verðtryggingu berjast á hæl og hnakka á erlendum vettvangi til að verja hana jafnt með því sem fram hefur komið af hennar máli í þessu máli sem og öðrum þeim málum sem verið hafa til meðferðar á vettvangi EFTA-dómstólsins.

Ég verð að segja að mér finnst viðbrögð ríkisstjórnarinnar einkennast heldur mikið af vörn fyrir kerfið og því að gera því skóna að afleiðingar þessa dóms hljóti að verða litlar. Það er vissulega rétt, sem hæstv. ráðherra rakti hér áðan, að margt er óljóst og eftir á að útfæra margt í úrlausnum íslenskra dómstóla. En búið er að taka efnislega ákvörðun um það af EFTA-dómstólnum að 0% viðmiðunin gangi ekki og að hafi menn beitt henni þá skuli það hafa afleiðingar fyrir lántaka. Það er hins vegar hins innlenda dómstóls að ákveða hverjar. En það er alveg skýrt að afleiðingalaust verður það ekki að hafa beitt 0% verðbólgu í greiðsluáætlun.

Við í efnahags- og viðskiptanefnd höfum fengið skýringar frá lögfræðingum ríkisins og við heyrum svipuð sjónarmið reifuð hér af hæstv. ráðherra. Þau viðhorf fela öll í sér að það séu varnarlínur, það sé ekki líklegt að áhrif þessa dóms verði víðtæk. Ég vil vara við því í ljósi reynslunnar vegna þess að hingað til, þegar kerfið hefur búið til varnarlínur um sjálft sig, hafa þær ekki staðist. Það er ekkert útilokað að Hæstiréttur muni telja þessa dómsúrlausn hafa víðtækt gildi og það getur vel gerst. Við þurfum að búa okkur undir það og við þurfum að mæta óvissunni sem er um úrlausnina með það í huga að það getur alveg verið að túlkun dómstóla verði sú að þessi úrlausn EFTA-dómstólsins hafi víðtækar afleiðingar fyrir hið verðtryggða lánakerfi.

Við í þingnefndinni höfum til dæmis ekki enn fengið á fund okkar fulltrúa þeirra sem eru að sækja rétt sinn á hendur fjármálafyrirtækjunum. Ég held að það hljóti að verða næsta skref. Við höfum bara heyrt í lögfræðingum ríkisins.

Það er líka alveg ljóst, af grundvallarviðmiðum Evrópuréttar, að það er engin stór óvissa um það hvort sömu sjónarmið og gilda um tilskipunina sjálfa muni gilda um fasteignaveðlán hér á landi vegna þess að Alþingi Íslendinga ákvað sjálft að útvíkka gildissvið tilskipunarinnar og sú ákvörðun hlýtur að hafa í för með sér afleiðingar fyrir lántakendur.

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra nefndi ekki einu orði stóru millifærsluna sem stjórnarflokkarnir hafa ráðist í, skuldabixið mikla. Það er auðvitað allt í uppnámi núna því að óvissa er um það að hve miklu leyti verðtryggð lán kunni að vera ólögmæt eða lántakar þeirra eiga rétt á bótum af hendi lánveitenda. Það er algjörlega fráleitt að eyða opinberu fé í að bæta stöðu lántakenda nú en vel kann að vera að fjármálafyrirtæki verði dæmd til að bæta þeim þessa stöðu, skattgreiðendum að kostnaðarlausu. Það er algjörlega fráleit meðferð á almannafé að verja úr sameiginlegum sjóðum peningum til lækkunar á skuldum sumra heimila núna ef enn er ekki í ljós leitt hvort þær skuldbindingar standist að fullu og öllu íslensk lög og hvort það kunni að geta komið til þess að fjármálafyrirtækin þurfi að bera kostnað af þessu sjálf. Við eigum ekki að ríkisvæða með þessum hætti mögulegt tjón fjármálafyrirtækja. Mér þykir sá ásetningur ríkisstjórnarinnar að halda áfram með skuldabixið alveg óháð þessum dómi bera vitni um að enn einu sinni er þessi skuldaaðgerð að fá þá ásýnd að hún sé fyrst og fremst bankabjörgunaraðgerð frekar en aðgerð sem miðar að því að tryggja hag íslenskra heimila.

Nú eru næstu skref í höndum íslenskra dómstóla. Ég vil leggja áherslu á að mikilvægast af öllu er að við stöndum vörð um það að lántakar sæki sér allan þann rétt sem þeir kunna að eiga á hendur fjármálafyrirtækjum á grundvelli þessa dóms og að stjórnvöld þvælist þar ekki fyrir á nokkurn hátt heldur greiði fyrir því að fólk geti náð rétti sínum fram.